Hvernig ætlum við að kúka í geimnum?

Það eru ekki bara tæknilegu vandamálin sem krefjast úrlausnar, heldur …
Það eru ekki bara tæknilegu vandamálin sem krefjast úrlausnar, heldur er ekki síður mikilvægt að svara praktískum spurningum á borð við þá hvernig við ætlum að losa okkur við þvag, saur og tíðarblóð. AFP

Þegar geimfarar eru um borð í geimfari þar sem þeir geta andað að sér súrefni fara þeir á salernið þegar náttúran kallar. Þegar þeir þurfa að smella sér í geimbúninginn fyrir klukkustundalanga geimgöngu kemur sérstök fullorðinsbleyja í veg fyrir að allt fari út um allt.

En hvað ætla menn að gera þegar þeir þurfa að vera í búningnum í lengri tíma, jafnvel marga daga?

Þetta er eitt þeirra fjölmörgu vandamála sem leysa þarf áður en maðurinn heldur lengra út í geim, en bandaríska geimferðastofnunin NASA er að vinna í málinu og hefur tilkynnt um sigurvegara í svokallaðri Space Poop Challenge.

Sá heitir Thatcher Cardon og er heimilislæknir, skurðlæknir og liðforingi í bandaríska flughernum. Við útfærslu lausnarinnar nýtti hann sér þekkingu sína á kviðarholsspeglun.

Samkeppnin gekk út á að finna örugga og læknisfræðilega áreiðanlega leið fyrir geimfara til að losa sig við úrgang; þvag, saur og tíðablóð, þegar þeir þurfa að klæðast geimbúningum í 144 klukkustundir samfleytt, eða sex daga.

Svona kemst geimfarinn Richard Mastracchio að orði:

„Er mannfólkið leitar út fyrir sporbraut jarðar, ferðast til tunglsins og Mars, munum við þurfa að leysa mörg vandamál; flest þeirra flókin tæknileg vandamál. En sum eru einföld: Hvernig förum við á salernið í geimnum?“

Vandinn verður aðkallandi ef til langferða kemur, þar sem saurugur geimbúningur getur leitt til sýkinga og blóðeitrunar.

Fleiri en 5.000 lausnir bárust frá „öllum ríkjum og heimsálfum heims“ en það var MACES Perineal Access & Toileting System (M-PATS) Cardon sem varð ofan á.

„Ég var aldrei á því að það væri gott að geyma úrganginn í búningnum,“ segir Cardon. „Þannig að ég hugsaði; hvernig getum við komist inn í og út úr búningnum auðveldlega?“

Hönnun Cardon felur í sér lítinn loftlás í klofinu á geimbúningnum, sem koma mætti í gegnum þvagleggjum, uppblásanlegum hægðaskálum og öðrum slíkum lausnum.

Mögulega verður hægt að nota þær lausnir sem bárust í keppninni á jörðu sem og á himni.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert