Háskólasamstarf fær styrk

Marina Candi, dósent við viðskiptadeild HR.
Marina Candi, dósent við viðskiptadeild HR.

Rannsóknarmiðstöð Háskólans í Reykjavík í nýsköpun og frumkvöðlafræðum hefur fengið styrk frá Evrópusambandinu vegna tveggja samstarfsverkefna sem ganga út á að auka frumkvöðlafærni, útbreiðslu og sýnileika frumkvöðlastarfsemi í þremur nýiðnvæddum löndum: Suður Afríku, Filippseyjum og Indónesíu. Um er að ræða þriggja ára verkefni sem unnin eru í samstarfi við um 20 aðra háskóla í Evrópu og í löndunum þremur.

Heildarstyrkurinn nemur tveimur milljónum evra, eða um 240 milljónum íslenskra króna. Meðal samstarfsskóla í verkefnunum eru Glasgow Caledonian University, Roskilde University, Nelson Mandela University í S-Afríku, University of Asia and the Pacific á Filippseyjum og University of Indonesia í Indónesíu, segir í fréttatilkynningu frá HR.

„Verkefnin skapa vettvang bæði til þess að rannsaka frumkvöðlastarfsemi í menningarheimum sem eru mjög ólíkir okkar og einkennast af mjög hraðri þróun og vexti - og ekki síður til þess að láta gott af okkur leiða“, segir Marina Candi, dósent við viðskiptadeild HR, sem stýrir báðum verkefnunum, í fréttatilkynningunni. Auk hennar tekur Hallur Sigurðarson, aðjúnkt við viðskiptadeild HR, þátt í verkefnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert