Telur að YamaYama muni slá í gegn

Tölvuleikurinn YamaYama er á leiðinni til Boston.
Tölvuleikurinn YamaYama er á leiðinni til Boston.

Tölvuleikurinn YamaYama frá íslenska tölvuleikjaframleiðandanum Lumenox Games hefur verið valinn til þátttöku á einni stærstu tölvuleikjasýningu heims, PAX East, í Boston.

Í fyrra mættu um 70 þúsund manns á sýninguna þegar hún var haldin í borginni Seattle.

Hluti af fyrirtækinu Lumenox Games.
Hluti af fyrirtækinu Lumenox Games. Ljósmynd/Aðsend

Dómnefnd velur 

„Þetta er pínulítið eins og að vera að fara á verðlaunahátíð fyrir kvikmyndir. Þúsundir indíleikja sækja um að komast inn og dómnefnd með aðilum innan geirans velur hvaða leikir komast að,“ segir Jóhann Ingi Guðjónsson, markaðsstjóri Lumoneox Games, og bætir við að aðeins rúmlega 20 indíleikir séu sýndir þarna árlega. „Þannig að þetta er mikill heiður.“

Með indíleikjum á hann við leiki sem fyrirtæki gefa sjálf út án aðstoðar útgefanda. Með því að gera samninga við veitur eins og Steam og PlayStation Network er svo hægt að gefa leikina út á netinu.

PlayStation og Xbox á staðnum

Þetta er í þriðja sinn sem Lumenox Games heldur til Bandaríkjanna að sýna tölvuleik á Pax East en átta manns starfa hjá fyrirtækinu. Jóhann Ingi segir það hafa mikla þýðingu fyrir kynningu YamaYama að komast inn á hátíðina, sem verður haldin 10. til 12. mars, því starfsmenn stærstu tölvuleikjaframleiðandanna á borð við Sony PlayStation, Xbox og Nintendo reyna þar jafnan að fá leikina yfir á sínar leikjavélar.

Jóhann Ingi er sannfærður um að leikurinn eigi eftir að slá í gegn á sýningunni og bendir á að tónlistin sé skemmtileg og margir geti spilað hann í einu. „Við vonumst til að fá ákveðið „buzz“ í kringum leikinn út af þessu. Allir stærstu fjölmiðlarnir erlendis eru þarna og tugir þúsunda tölvuleikjaaðdáenda líka. Ef þeir sjá eitthvað sem þeir „fíla“ byrja þeir að tala um það og það hefur ótrúlega mikil áhrif.“

Gaman saman 

YamaYama er svokallaður partýleikur þar sem tveir til fjórir spilarar keppa á móti hver öðrum í yfir 20 mismunandi þrautum. Hægt er að spila saman í gegnum eina PC-tölvu eða hver á móti á netinu. Leikurinn hefur fengið lof erlendis fyrir skemmtilegar teikningar og listrænan stíl ásamt því að vera með frumlegar þrautir.

Vinnslan við tölvuleikinn hófst sumarið 2015. Síðan þá hefur Lumenox Games fengið Íslendinga til að spila leikinn og gefa álit sitt á honum, hvað sé rétt að taka út og hverju megi bæta við. Þannig er leikurinn mjög íslenskur, ef svo má segja, og virðist það hafa vakið lukku hjá dómnefnd PAX East.

YamaYama.
YamaYama.

Kemur líklega út á PlayStation

YamaYama er núna á lokametrunum í framleiðslu. Að sögn Jóhanns Inga hefur dreifingarsamningur þegar verið gerður við Steam vegna leiksins og er Beta-útgáfan af honum komin í sölu þar. Útgáfuréttur hefur einnig verið gerður við Sony og þarf aðeins lokaleyfi til að leikurinn komi út á PlayStation. Jóhann veit ekki til þess að aðrir en CCP hér á landi hafi átt tölvuleiki sem hafa verið gefnir út á PlayStation.

Annar leikur Lumenox Games, Aaru's Awakening, hefur áður verið gefinn út á Steam, PlayStation 3 og 4 og Xbox One.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert