Vilja efnið sem kom í stað freons burt

Majuro er eyjabogi sem tilheyrir Marshall-eyjum. Land liggur lágt og …
Majuro er eyjabogi sem tilheyrir Marshall-eyjum. Land liggur lágt og því er mikil hætta á að eyjarnar fari í kaf hækki sjávarborð mikið. Ljósmynd/Wikipedia

Yfirvöld á Marshall-eyjum í Kyrrahafi, þar sem hætta stafar af hækkun yfirborðs sjávar vegna loftslagsbreytinga, er fyrsta ríki heims til að staðfesta samkomulag sem miðar að því að hætta útblæstri vetnisflúorkolefnisgass, svokallaðra HFC-gastegunda. Gastegundirnar valda hlýnun lofthjúpsins.

Samkomulagið sem kennt er við Kigali, höfuðborg Rúanda, var samþykkt af um 200 ríkjum í október í fyrra. Það hafði þá verið rætt fram og til baka árum saman. Tuttugu ríki verða að staðfesta samkomulagið svo því verði framfylgt. 

„Land mitt mun ekki komast af án aðkallandi aðgerða til að draga úr útblæstri allra þjóða og allra geira efnahagslífsins, þeirra á meðal HFC-gastegunda,“ segir Hilda Heine, forseti Marshall-eyja, í yfirlýsingu sem send var út í kjölfar samþykktar þingsins á Kigali-samkomulaginu. 

Kigali-samkomulagið kallar á sérstaka innleiðingu og breytinga á svokölluðu Montreal-samkomulagi sem samþykkt var árið 1987. Í því samkomulagi var áhersla lögð á að draga úr útblæstri freonefna (CFC-gastegunda) frá m.a. ísskápum, loftkælingum og einangrun. Freonefni eyðileggja ósónlagið sem hlífir jörðinni við hættulegum útfjólubláum geislum sólar. 

Vetnisflúorkolefnisgös, HFC, voru kynnt til sögunnar á tíunda áratug síðustu aldar og komu í stað freonefna.

En í ljós kom að HFC, sem voru ekki hættuleg ósonlaginu, voru þúsund sinnum líklegri til að binda hita í andrúmsloftinu en koltvíoxíð, gastegundin sem oftast er kennt um loftslagsbreytingar. 

Skipt getur sköpum að hætta losun efnisins

Árið 2015 samþykktu þjóðir heims á loftslagsráðstefnunni í París að vinna að því að takmarka hlýnun jarðar við 2°C næstu árin. Marshall-eyjur voru meðal fyrstu ríkjanna til að staðfesta Parísarsamkomulagið. 

Helstu leiðir sem nefndar hafa verið til sögunnar að þessu markmiði er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem komast út í andrúmsloftið með brennslu kola, olíu og gass.

Sérfræðingar segja að með því að útrýma HFC-gastegundum, sem ekki var fjallað um í Parísarsamkomulaginu, væri hægt að minnka hlýnun jarðar um allt að 0,5°C. 

„Nú þurfa fleiri að gera þetta sama,“ segir Heine um ákvörðun þings Marshall-eyja. „Þessi samningur er góður fyrir okkar fólk, fyrir jörðina og þeir sem á eftir fylgja munu græða á honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert