Rannsaka yfirgefna herstöð á Grænlandi

Vegna hlýnunar jarðar er talið líklegt að úrgangurinn komi einhvern …
Vegna hlýnunar jarðar er talið líklegt að úrgangurinn komi einhvern tímann undan ísnum, spurningin er bara hvenær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Danskir vísindamenn munu í sumar ferðast til Grænlands til að rannsaka Camp Century, bandaríska herstöð frá kalda stríðinu. Herstöðin var byggð í jökulhettu á Grænlandi árið 1960 en yfirgefin árið 1966.

Að því er fram kemur í umfjöllun Arctic Now er ólíklegt að rannsóknin leiði í ljóst margt nýtt þar sem mengun á svæðinu hefur þegar verið skjalfest, meðal annars í grein sem birtist í Arctic Journal í ágúst. Þar kom fram að á svæðinu væri mikið magn af margs konar mengunarvöldum, allt frá skólpi til lítilvægs geislavirks úrgangs.

Höfundar greinarinnar mátu magn ýmiss konar mengunarvalda en vísindamennirnir munu að öllum líkindum leggjast í nákvæmari mælingar. Þá munu þeir líklega reyna að komast að því hvað sé best að gera í menguninni en útgangurinn er um það bil 50 metra undir yfirborði íssins eða 40 metrum dýpra en þegar bandarískir hermenn yfirgáfu herstöðina.

Á þeim tíma sem herstöðin var yfirgefin var talið að úrgangurinn myndi að eilífu vera grafinn undir ís en vegna hlýnunar jarðar er nú sagt líklegt að það muni ekki standast. Spurningin sé nú frekar hvort úrgangurinn komi undan ísnum eftir hundruð, þúsundir eða tugi þúsunda ára.

Frá vísindalegu sjónarhorni virðist besta lausnin vera að bíða eftir því að úrgangurinn komi undan ísnum þar sem það myndi skapa enn meiri vandræði að reyna að hreinsa það eins og staðan er núna. Haft er eftir Jørgen Peder Steffensen, eðlisfræðingi sem sérhæfir sig í ískjarna, að betra væri að búa til áætlun um hreinsun sem væri þá tilbúin þegar mengunarvaldarnir losna undan ísnum.

Málið er þó ekki svo einfalt þegar kemur að stjórnmálalegu samhengi en stjórnvöld í Nuuk hafa gagnrýnt bæði bandarísk og dönsk stjórnvöld vegna málsins þar sem hvorugt ríkið hefur sýnt minnsta áhuga á að hreinsa svæðið. Herstöðin var sem fyrr segir á vegum bandaríska hersins en dönsk yfirvöld gáfu á sínum tíma leyfi fyrir byggingu hennar.

Vittus Qujauqitsoq, utanríkisráðherra Grænlands, hefur sagt að vegna þessa sé hætta á að Grænlendingar sitji uppi með ábyrgðina á hreinsun á herstöð sem þeir viti ekki hvers vegna var byggð eða af hverju var yfirgefin.

Stjórnvöld í Nuuk hafa því líklega mestan áhuga á að sjá hvað gerist eftir að rannsókninni lýkur. Hreinsa þarf um 30 bandarískar herstöðvar í Grænlandi sem notaðar voru á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar og kalda stríðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert