Ekki svo snjöll rétt fyrir svefninn

Snjalltæki eru ekki snjöll lausn fyrir börn sem eiga að …
Snjalltæki eru ekki snjöll lausn fyrir börn sem eiga að fara að sofa. AFP

Börn sem eru í snjalltækjum skömmu áður en þau fara að sofa eru tvisvar til þrisvar sinnum líklegri að vera þreytt og illa upplögð í skólanum daginn eftir en önnur börn. Þetta er niðurstaða nýlegrar rannsóknar sem var unnin af American Medical Assocation, Aftenposten og Politiken greina frá.

Um er að ræða rannsókn sem byggir á niðurstöðum tuttugu ólíkra rannsókna en alls tóku rúmlega 125 þúsund börn á aldrinum 10 til 18 ára þátt í rannsókninni sem stóð yfir í fjögur ár.

Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að börn og ungmenni sem eru mikið í snjalltækjum eru líklegri til þess að sofa of lítið, svefninn er ekki eins djúpur og hjá öðrum börnum og þetta leiðir til þess að þau eru úrvinda af þreytu á daginn.

Anne Lindhardt geðlæknir segir í samtali við Politiken að það sé ekkert nýtt að börn sofi of lítið en rannsóknin sýni svart á hvítu hversu alvarlegar afleiðingar það hefur í för með sér. Því vandamálið nær lengra en inn í skólana. Þetta getur leitt til þunglyndis og óhamingju, segir Khalid Azam  ráðgjafi hjá Medietilsynet (fjölmiðlastofu) á sviði tölvuleikja. Hann segir að staðan sé orðin þannig að einhver börn og unglingar þori ekki að sleppa takinu á snjalltækinu á nóttinni af ótta við að missa af einhverju á samfélagsmiðlum.

Frétt Aftenposten

Frétt Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert