Fornminjar í egypskum forarpytti

Fornleifafræðingar telja að styttur sem fundust í forarpytti í úthverfi Kaíró í vikunni séu yfir þrjú þúsund ára gamlar og séu af Ramses II faraóa sem ríkti yfir Egyptalandi 1279 til 1213 fyrir Krist.

Forminjarnar fundust í Mattarya-hverfinu á þriðjudag, en þarna var áður forna borgin Heliopolis sem var fræg fyrir heimspekiskóla sína. 

AFP

Ævafornt sólhof fannst þarna fyrir 11 árum, en þar var rekinn flóamarkaður á þeim tíma. Þá fundust meðal annars risavaxnar granítstyttur í hofinu sem voru um fimm tonn að þyngd. Er talið að munirnir séu frá tímum Ramsesar II.  Fannst meðal annars 1,5 metra há stytta af faraóunum við uppgröftinn þá.

Önnur styttan sem fannst á þriðjudag er átta metrar að hæð en hún er gerð úr kvarsandsteini. Styttan fannst á auðu svæði milli fjölbýlishúsa og þrátt fyrir að ekki sé búið að staðfesta að styttan sé af Ramsesi þá er það talið nánast fullvíst.  Hin styttan er úr kalksteini og er af Seti II, faraóa frá tólftu öld fyrir Krist, en hann var barnabarn Ramsesar.

Fornleifafræðingarnir sem eru þarna að störfum eru hluti af sameiginlegum leiðangri Þjóðverja og Egypta. Aymen Ashmawy, sem leiðir hópinn af hálfu Egypta, segir að fundur fornleifafræðinganna sýni mikilvægi borgarinnar Heliopolis, en þar var guðinn Re dýrkaður. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert