Var T-rex blíður elskhugi?

Grameðlugrind.
Grameðlugrind. Wikipedia/ScottRobertAnselmo

Tyrannosaurus rex, ein skelfilegasta skepna jarðsögunnar, kann að hafa stundað blíðlegan forleik áður en hún eðlaði sig, ef svo má að orði komast. Vísindamenn segja grameðluna hafa haft viðkvæm trýni, sem dýrin kunna að hafa nuddað saman fyrir mökun.

Hin hrikalega kjötæta varð allt að 6 metra há og státaði af 23 sm löngum skörðóttum tönnum en var með trýni sem var jafn næmt fyrir snertingu eins og fingur nútímamannsins.

Vísindamenn segja eðluna munu hafa notað trýnið til að rannsaka umhverfið, byggja hreiður og taka egg sín og afkvæmi varlega upp.

Þeir telja einnig mögulegt að karlkyns og kvenkyns grameðlur kunni að hafa notið þess að nudda trýnunum saman í „ástarleik.“

Ályktunina draga þeir í kjölfar fundar nýs fjölskyldumeðlims grameðlufjölskyldunnar, sem hefur verið nefndur daspletosaurus horneri. D horneri var uppi á undan T-rex og var töluvert minni.

Leifar skepnunnar fundust í Montana í Bandaríkjunum og voru óvenjuvel varðveittar. Það var andlit D horneri sem reyndist opna áður luktar dyr að skilningi á þróun tyrannosaur-fjölskyldunnar en á hörðu yfirborði trýnisins reyndust hafa verið fjöldi lítilla taugaopa.

Að því er Guardian greinir frá hefðu þessi op gert hundruðum greina svokallaðrar þrenndartaugar kleift að ná upp á yfirborð trýnisins og breyta því í „þriðju höndina.“

Þessa „tilhögun“ er enn að finna hjá krókódílum en þrenndartaugin hefur sérstöku hlutverki að gegna hjá mörgum spendýrum, eðlum og fuglum, og er t.d. sú taug sem flytur skilaboð frá veiðihárum kattardýra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert