Grátgjörnustu börnin í Bretlandi

Nýfædd börn í Danmörku gráta minna en börn á Bretlandi.
Nýfædd börn í Danmörku gráta minna en börn á Bretlandi.

Nýfædd börn í Bretlandi, Kanada, Ítalíu og Hollandi gráta meira á fyrstu þremur mánuðum  en börn fædd í Danmörku, Þýskalandi og Japan, samkvæmt nýrri rannsókn. Fréttastofan Reuters greinir frá

Rannsóknin sem birtist í tímariti barnalækna beindist að því að kanna hversu mikið og lengi börn gráta á fyrstu þremur mánuðum lífsins. Breskir sálfræðingar hafa kortlagt grát barna á fyrstu þremur mánuðunum og búið til alþjóðlega töflu sem sýnir eðlilegan grát ungbarna á þessu tímabili. 

„Börn eru ólík og það er einnig misjafnt hversu mikið þau gráta á fyrstu vikum lífsins,“ segir Dieter Wolker, prófessor við háskólann í Warwick, og einn af þeim sem fóru fyrir rannsókninni. Hann segir að hægt sé að rýna frekar í hvernig ólík menning er í þeim löndum þar sem börn gráta að meðaltali minna og kanna samspil annarra þátta eins og til dæmis upplifun af meðgöngu, erfðir barna og hegðun foreldranna sjálfa.

Wolker sagði jafnframt að þessi tafla myndi nýtast heilbrigðisstarfsfólki meðal annars við að kanna hvort nýbakaðir foreldrar þyrftu meiri stuðning ef barnið grætur meira en að meðaltali.  

Flest börnin sem voru með magakveisu, grétu meira en þrjár klukkustundir á dag í að minnsta kosti þrjá daga vikunnar, fæddust í Bretlandi, Kanada og á Ítalíu. Fæst ungbörn í Danmörku og Þýskalandi voru með magakveisu.  

Gráta mest við sex vikna aldur 

Að meðaltali grétu börn í um tvær klukkustundir á fyrstu tveimur vikunum. Börnin gráta sífellt meira og og meira þar til gráturinn nær hámarki við sex vikna aldur þegar þau gráta að meðaltali í tvær klukkustundir og 15 mínútur. Smám saman dregur úr grátinum og þegar þau hafa náð 12 vikna aldri gráta þau að meðaltali í eina klukkustund og 10 mínútur.

Tekið er fram að þetta er meðaltal og dæmi eru um börn sem gráta í 30 mínútur á meðan önnur gráta í fimm klukkustundir.  

Alls tóku 8.700 börn þátt í rannsókninni. Íslensk börn tóku ekki þátt í rannsókninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert