Rannsaka áhrif lyfjameðferða á meðgöngu

Rannsökuð verða áhrif lyfjameðferða á meðgöngu á fæðingarútkomur og þroska …
Rannsökuð verða áhrif lyfjameðferða á meðgöngu á fæðingarútkomur og þroska barna. Arnaldur Halldórsson

Hópur vísindamanna frá öllum norrænu ríkjunum og Bandaríkjunum hefur hlotið um 130 milljóna króna styrk frá rannsóknastofnun Norrænu ráðherranefndarinnar, NordForsk, til að rannsaka áhrif lyfjameðferða á meðgöngu á fæðingarútkomur og þroska barna, þar með talinn námsárangur. Jafnframt er ætlunin að kanna mögulegar afleiðingar þess fyrir heilsufar móður að hætta lyfjameðferð Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands. 

Að rannsókninni kemur hópur vísindamanna frá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands undir forystu Helgu Zoéga prófessors.

Rannsóknin beinist að notkun ákveðinna tegunda þunglyndis,- sykursýkis- og flogaveikislyfja. Nokkuð algengt er að konur á barneignaraldri noti þau en stundum er vandkvæðum bundið að hætta lyfjameðferð meðan á þungun stendur vegna alvarleika undirliggjandi sjúkdóms. Rannsóknin nefnist Nordic Pregnancy Drug Safety Studies (NorPreSS). 

Áhrif og verkun lyfja sjaldan prófuð á barnshafandi

„Það eru siðferðisleg rök fyrir því að áhrif og verkun lyfja eru sjaldan prófuð á barnshafandi konum með hefðbundnum klínískum lyfjarannsóknum. Þess vegna eru fæst lyf með ábendingar fyrir þungaðar konur og oft er snúið að ákveða hvort eða hvernig skuli halda lyfjameðferð áfram þegar kona verður þunguð. Í rannsóknunum ætlar hópurinn því að nota annað rannsóknarsnið til að varpa ljósi á öryggi og hættur (e. safety) lyfjanotkunar á meðgöngu, bæði til skamms og lengri tíma.“ Segir jafnframt í tilkynningu. 

„Verkefnið mun vonandi færa okkur nýja þekkingu um gagnsemi og áhættu ákveðinna lyfja á meðgöngu og auðvelda ákvarðanir um meðferð fyrir konur sem glíma við þunglyndi, sykursýki og flogaveiki á meðgöngu,“ segir Helga Zoéga um þýðingu rannsóknarinnar í tilkynningu. 

Styrkurinn til verkefnisins nemur 10 milljónum norskra króna, jafnvirði um 130 milljóna íslenskra króna, sem skiptast á milli rannsóknarhópanna en áætlað er að íslenski hópurinn fái um 25 milljónir króna. Fjármunirnir koma úr rannsóknaráætlun NordForsk sem tengist heilsu og velferð en aðeins sjö rannsóknarverkefni af 48, sem sótt var um styrk fyrir, voru styrkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert