Fé fyrir upplýsingar um dróna

Drónar trufla flugsamgöngur í Kína.
Drónar trufla flugsamgöngur í Kína. AFP

Kínverskur drónaframleiðandi sem nefnist DJI býður þeim sem getur gefið upplýsingar um dróna sem hafa truflað flug á flugvöllum í Kína alls 112 þúsund pund eða rúmar 15 milljónir króna. BBC greinir frá

Drónar eru sagðir hafa truflað flug á Chengdu Shuangliu flugvellinum í fjóra daga í apríl. Mesta truflunin var 21. apríl síðastliðinn þegar drónar röskuðu um 60 flugum. Að sögn kínverskra sérfræðinga sýna þessar tölur hversu erfitt það reynist að kljást við hættulegt drónaflug nálægt flugvélum.  

Öllu lægri upphæð eða rúmar 150 þúsund krónur hafa stjórnvöld boðið þeim sem geta veitt upplýsingar um dróna sem er flogið nálægt flugvöllum og öðrum samgöngum.  

Stjórnvöld ítreka að flug dróna nálægt flugvöllum er mjög hættulegt og það ógni öryggi almennings. Þetta hefur einnig neikvæð áhrif á ímynd tæknifyrirtækja sem framleiða dróna.

Almenningi gefst kostur á að veita stjórnvöldum upplýsingar til 31. desember næstkomandi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert