Eldflaugaskotið gekk eins og í sögu

Frá eldflaugaskotinu í morgun. SpaceX skaut á loft Falcon 9 …
Frá eldflaugaskotinu í morgun. SpaceX skaut á loft Falcon 9 eldflaug sem lenti síðan upprétt á lendingarpalli. AFP

„Og það er lending. Skotbúnaður eldflaugarinnar er lentur á Lendingarsvæði 1,“ sagði yfirvélarverkfræðingur SpaceX, John Federspiel, þegar hann lýsti eldflaugarskoti SpaceX í morgun. Falcon-eldflaug sem bar njósnabúnað bandaríska hersins var skotið á loft í morgun.

Eldflaugaskotið markar mikil kaflaskil þar sem um er að ræða fyrsta eldflaugaskot SpaceX fyrir varnamálaráðuneyti Bandaríkjanna, sem stofnandinn Elon Musk hefur lengi gengið á eftir. SpaceX kærði t.a.m. flugherinn vegna einokunarstöðu Boeing og Lockheed-Martin á eldflaugaskotum fyrir varnarmálaráðuneytið.

Þegar fyrsta lag flaugarinnar, skotbúnaðurinn, skildi sig frá flauginni tók hann stefnuna að lendingarpallinum og lenti þar uppréttur. Er það í tíunda skipti sem það tekst en SpaceX tókst það fyrst í desember 2015. Er tæknin talin verða til þess að draga verulega úr kostnaði sem fylgir eldflaugaskotum. 

Elon Musk, stofnandi og eigandi SpaceX.
Elon Musk, stofnandi og eigandi SpaceX. AFP

Flauginni var skotið á loft frá Kennedy Space Center í Flórída og eins og segir að ofan var markmiðið að skjóta njósnabúnaði á sporbaug. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur þó ekki viljað tjá sig frekar um hvers eðlis búnaðurinn er að því er kemur fram í frétt á vef Space.com. Þar segir enn fremur að þetta hafi verið 34. eldflaugaskot SpaceX.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert