Tölvuárásir orðnar fleiri en allt árið í fyrra

Vefsíða sem sýkt hefur verið af tölvuvírus og lausnargjalds krafist. …
Vefsíða sem sýkt hefur verið af tölvuvírus og lausnargjalds krafist. Fleiri netárásir hafa verið gerðar það sem af er þessu ári en allt árið í fyrra. AFP

Rúmlega sex milljarðar tölvuskjala hafa verið hakkaðir það sem af er þessu ári, samkvæmt upplýsingum frá bandaríska netöryggisfyrirtækinu Risk Based Security. Segir fyrirtækið mikla aukningu í tölvuárásum, sem séu þegar orðnar fleiri en allt árið í fyrra.

„Það er ótrúlegt að sjá þennan sívaxandi fjölda netárása,“ sagði Inga Goddjin, aðstoðarforstjóri Risk Based Security. Í skýrslu fyrirtækisins fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs segir að Risk Based Security hafi á fyrri hluta árs borið kennsl á upplýsingar úr 2.227 skjölum sem stolið hafi verið frá fyrirtækjum, heilbrigðis- og menntastofnunum og síðan gerð opinber á netinu.

Í skýrslunni kemur fram að tölvuþrjótar beini sjónum sínum í síauknum mæli að atvinnumálum og skattaskýrslum. Netveiðum (e. phishing) er beitt í sumum árásanna til að fá upplýsingar beint frá fólki, í öðrum tilfellum eru það mannauðsdeildir, ráðningarfyrirtæki og þeir sem vinna með slíkar upplýsingar sem verða fyrir barðinu á þrjótunum.

„Þó að fréttir af netárásum með það í huga að hafa áhrif á kosningakerfi annarra landa séu meira áberandi er fjöldi þeirra árása sem við höfum fylgst með á þessu ári alvarleg áminning um það hversu mikill fjöldi netglæpa er framinn með fjárhagslegan ávinning í huga,“ sagði Goddjin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert