Sársauki og þjáningar í víðu samhengi

Ráðstefnan verður haldin í Háskóla Íslands um helgina.
Ráðstefnan verður haldin í Háskóla Íslands um helgina. Ómar Óskarsson

„Þetta er svolítið óvenjuleg ráðstefna að því leyti að við erum að leiða saman fólk úr gagnólíkum áttum til að ræða sársauka, sem kemur öllum við,“ segir Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, einn skipuleggjenda ráðstefnunnar Svipbrigði sársaukans, sem fram fer við Háskóla Íslands um næstu helgi.

Bergljót fer fyrir Stofu um hugræn fræði við Háskóla Íslands, en auk hennar standa Gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík og hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands að ráðstefnunni. Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur er ókeypis.

Þar mun fólk úr ýmsum áttum fræðaheimsins koma saman og ræða um sársauka og þjáningu. „Þarna eru sálfræðingar, gervigreindarfræðingar, læknar, þeir sem eru í erfðafræði, bókmenntafræðingar, þeir sem eru með hugann við loftslagsmál, þeir sem eru einkum að huga að mannréttindamálum, þeir sem eru að fjalla um hinsegin fólk og eru í kynjafræði. Ég held að þetta verði bara voða gaman,“ segir Bergljót.

Gervigreind og þjáningar

„Þetta fólk á það sameiginlegt að það er allt að skoða tvö mismunandi fyrirbæri, sársauka og þjáningu, bara frá mjög mismunandi sjónarhornum. Allt þetta fólk á það sameiginlegt að hafa áhuga á hvernig manneskjan bregst við ákveðnum hlutum,“ segir Bergljót.

„En hvernig tengist gervigreind sársauka?“ spyr blaðamaður.

„Gervigreindarfræðingarnir eru á fullu í að þróa tilfinningatölvun, sem getur ekki bara aðstoðað við að glöggva sig á tilfinningum fólks, heldur snýr hún einnig að því að tölvunum er kennt að bregðast tilfinningalega við.“

Einnig bendir Bergljót á erindi Rannveigar S. Sigurvinsdóttur, nýdoktors í sálfræði við HR, sem fjallar um sýndarveruleikameðferð til bættrar andlegrar heilsu.

Bergljót Kristjánsdóttir.
Bergljót Kristjánsdóttir. Kristinn Ingvarsson

Sársauki mannlegrar tilvistar

Sérfræðingar úr heilbrigðisstéttum verða með erindi um sársauka og verki sem einstaklingar upplifa, að sögn Bergljótar.

„Arnór Víkingsson, læknir sem mætir þarna, hefur talað mjög vel um þá verki sem eru hluti af því að vera til, hausverkur og bakverkur og sinadráttur og túrverkur og sársaukann sem eðlilegt einkenni á mannlegri tilvist.

Þá vinnur Sigríður Zoëga, lektor og hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, með verkjateyminu þar, sem er ekki síst verið að átta sig á því hvernig er hægt að bregðast við hjá fólki sem er með langvinna verki.

Sálfræðingurinn sem kemur frá Bath á Englandi, Christopher Eccleston, hann leiðir verkjateymið þar og er sífellt með hugann við hvernig er sálfræðilega hægt að draga úr verkjum fólks, því vandinn er ekki síst þegar fólk er með króníska verki sem lítið er hægt að gera við.“

Samkennd og sársauki annarra viðfangsefni skálda

Bergljót segir að það sem tengi allt þetta fólk saman sé áhugi á því hvernig hægt sé að lina þjáningar fólks og hvernig hægt sé að átta sig á sársauka annarra og finna til með öðru fólki. „Þar koma skáldin inn í,“ segir Bergljót, sem er bókmenntafræðingur og hefur mikinn áhuga á því hvernig fólk bregst við skáldskap.

Ana Naila Zahin, bloggari og aðgerðasinni frá Bangladesh, sem Reykjavíkurborg veitti skjól fyrr á þessu ári, verður með erindi á laugardag sem ber yfirskriftina „Hvernig á að finna til öryggis á snjóþöktum kletti í miðju Atlantshafi“.

Þá mun Guðni Elísson fjalla um loftslagsmál og Sif Ríkarðsdóttir mun fjalla um birtingarmynd sársauka í norrænum miðaldabókmenntum.

„Ég held að þetta geti verið gríðarlega skemmtileg umræða. Erlendu fyrirlesararnir eru mjög upprifnir yfir því hvað þetta er ólíkur hópur sem er leiddur þarna saman og ég held að það skipti mjög miklu máli til að við áttum okkur betur á fyrirbærinu og sjáum það í víðu samhengi,“ segir Bergljót.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert