Svefnraskanir og ADHD samtvinnað

Þeir sem eru með ADHD eiga oft erfitt með að …
Þeir sem eru með ADHD eiga oft erfitt með að sofna og eiga síðan að vakna snemma til þess að mæta í skóla og vinnu. AFP

Helstu merki ADHD eru einbeitingarskortur, ofvirkni og hvatvísi. Nýjar rannsóknir benda til þess að röskun á svefni tengist ADHD. Niðurstaðan undirstrikar það sem margir læknar hafa bent á  - að svefnraskanir tengist mörgum af helstu heilsufarsvandamálum heimsins í dag. Má þar nefna offitu, sykursýki og hjartarsjúkdóma. Talið er að rannsóknin geti haft áhrif á meðferðir við ADHD og hvernig er hægt að veita meðferðir við sjúkdómnum án þess að setja fólk á lyf. 

Rítalín. Lyfið er notað við ADHD.
Rítalín. Lyfið er notað við ADHD. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Örvandi lyf á borð við rítalín, sem notuð eru við ADHD, voru sá lyfjaflokkur sem kostaði Sjúkratryggingar Íslands, SÍ, mest á síðasta ári. Þetta kemur fram í staðtölum SÍ fyrir árið 2016 og þar segir að kostnaðurinn við þessa tegund lyfja hafi verið 799 milljónir í fyrra.

Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að ADHD er skammstöfun fyrir Attention Deficit Hyperactivity Disorder. Á íslensku hefur þetta heilkenni verið nefnt athyglisbrestur með ofvirkni, skammstafað AMO og verður sú skammstöfun notuð í þessu svari. AMO stafar af truflun á starfsemi heilans sem veldur einbeitingarskorti, ofvirkni og/eða hvatvísi. Þetta hamlar viðkomandi heima fyrir, í skóla, meðal félaga, í vinnunni og samfélaginu almennt.

Rannsóknin verður kynnt á lyfjafræðiráðstefnu í París í dag og er það Sandra Kooij, prófessor við VU háskólann í Amsterdam sem útskýrir niðurstöður rannsóknarinnar. 

Hún segir í viðtali við Guardian að rannsóknin leiði í ljós að svefntruflanir og ADHD eru samtvinnuð. 

Ofvirkni er oftast mest áberandi snemma í bernsku eða um miðbik hennar en minnkar mikið með aldri. Á fullorðinsaldri kemur hún helst fram sem eirðarleysi eða „ofvirkni hugans“ auk þarfar fyrir að vera líkamlega virkur, segir á Vísindavef HÍ.

„Hvatvísi eða hömluleysi helst í gegnum æskuna og fram á fullorðinsár og kemur oft fram sem of mikil málgleði, framígrip og að segja hluti án þess að velta fyrir sér hugsanlegum afleiðingum þess fyrst. Hvað varðar líkamlegar athafnir eru ofvirk börn líklegri en önnur til að taka áhættu og er afleiðingin sú að áverkar vegna slysa eru 2-4 sinnum tíðari meðal þeirra en meðal fullorðinna eða barna án kvillans.“

Yfirleitt kemur ADHD í ljós strax á barnsaldri eða þegar börn fara í skóla. Það er aftur á móti ekki algilt og stundum er fólk ekki greint með ADHD fyrr en á fullorðinsárum. Talið er að 2-5% fólks greinist með ADHD, samkvæmt Guardian.

í 80% tilvika er viðkomandi með svefntruflanir, segir Kooij. Þeir sem eru með ADHD geti einfaldlega ekki farið inn í rúm og sofnað í lok dags líkt og flestir aðrir, segir Kooij. 

Hún segir þetta hafa afleiðingar því þeir sem eru með ADHD sofna oft ekki fyrr en um þrjúleytið að nóttu og eiga samt sem áður að mæta í skóla eða vinnu morguninn eftir. Þetta hefur þær afleiðingar að viðkomandi er vansvefta í skóla eða vinnu.

Vandamálið tengist truflunum á taugaboðum sem flytja dópamín og melatónín í heilann segir hún. Þessi efni stýra því hvenær við sofnum og hvenær við vökunum. 

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert