Tölvuleikur sem vekur athygli á notkun smokksins

Gamatic segir að allir sem spili leikinn fái 40% rafrænan …
Gamatic segir að allir sem spili leikinn fái 40% rafrænan afsláttarmiða frá Durex til að kaupa smokka, en afslátturinn gildir í öll apótek Lyfju. Þeir sem ná að ljúka leiknum komast enn fremur í verðlaunapott, þar sem m.a. flugferð til Evrópu er í boði. Vinningar verða dregnir út 1. nóvember. Mynd/Smokkaleikurinn

Gamatic ehf., í samvinnu við landlæknisembættið, Lyfju og Durex, kynnir Smokkaleikinn sem er ókeypis forvarnarleikur fyrir snjallsíma. Tilgangur leiksins er að vekja athygli á notkun smokksins til að draga úr útbreiðslu kynsjúkdóma á Íslandi. 

Fram kemur í tilkynningu frá Gamatic, að forvarnir á Íslandi til að draga úr slíkum smitum hafi ekki virkað sem skyldi. Er leikurinn hugsaður sem leið landlæknisembættisins til að ná til ungs fólks. 

Markmið leiksins er að skjóta smokkum á aðvífandi vírusa, s.s. klamydíu, HIV, sýfilis og herpes. Leikmenn geta skotið hvar sem er á skjánum en smokkabyssan eltir fingur leikmanna og skýtur á þann stað þar sem skjárinn er snertur. 

Í leiknum er einnig að finna fræðsluefni, m.a. spurningar og svör um kynsjúkdóma og smokkinn. 

Í leiknum er einnig valmöguleiki sem kallast „Spurðu sérfræðinginn“. Þá geta leikmenn sent fyrirspurn til Sigurlaugar Hauksdóttur, sérfræðings landlæknis, um allt milli himins og jarðar hvað varðar smokka og kynsjúkdóma. Fram kemur í tilkynningu að þetta sé gert í algjörum trúnaði. 

Hér má finna nánari upplýsingar um leikinn. 

Nánari upplýsingar um kynsjúkdóma á vef landlæknisembættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert