Yfir 50 stiga hiti líklegur

Tvær stærstu borgir Ástralíu geta átt von á því að hitinn fari yfir 50 gráður á Celsíus-kvarða þar innan fárra áratuga. Hæsti hitinn sem hefur mælst í Melbourne er 46,6 stig en það var árið 2009. Í Sydney mældust 45,8 gráður á Celsíus árið 2013. En miðað við nýjustu rannsóknir er útlit fyrir að hitastigið fari hækkandi í Eyjaálfu samfara loftslagsbreytingum sem eru að verða á jörðinni.

Rannsóknin náði aðeins til veðurfars í Victoria og New South Wales en þeir sem unnu rannsóknina segja að svipað verði væntanlega uppi á teningnum í öðrum hlutum landsins.

„Eitt af heitustu árum sögunnar í heiminum, árið 2015, gæti orðið að meðalári árið 2025,“ segir dr Sophie Lewis sem stýrði rannsókninni fyrir Australian National háskólann.

Hún segir að leiða megi líkur að því að á árunum 2040 til 2050 megi gera ráð fyrir því að hitinn fari yfir 50 gráður í þessum borgum. Síðasta sumar var 250 ára gamalt hitamet slegið í Ástralíu. Þegar er búið að gefa út viðvörun í Ástralíu varðandi komandi sumar. Er fólk beðið að huga að sínu nánasta umhverfi vegna hættu á kjarreldum sumarið 2017-2018.

Samkvæmt Parísarsamkomulaginu skuldbinda þjóðir heims sig til þess að reyna að hemja hlýnun jarðar á næstu árum við 2° á Celsíus-kvarða.

Frétt BBC

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert