Verndun hafsins og sjálfbær nýting auðlinda

Yfir 2000 manns frá um 50 löndum og ræðumenn er …
Yfir 2000 manns frá um 50 löndum og ræðumenn er yfir 600 talsins á ráðstefnunni Arctic Circle í Hörpu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Verndun hafsins og sjálfbær nýting auðlinda verður umfjöllunarefni í málstofu helgaðri smáum eyríkjum sem eiga öll það sameiginlegt að ráða yfir miklu hafsvæði á fimmta þingi Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle í dag. Þingið sækja yfir 2000 manns frá um 50 löndum og eru ræðumenn yfir 600 talsins.

Aðalmálstofur dagsins eru 10 talsins og viðfangsefni þeirra fjölbreytt, segir í tilkynningu. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra er frummælandi í málstofu um ný og vaxandi viðskiptatækifæri á Norðurslóðum ásamt Paul R. LePage ríkisstjóra Maine í Bandaríkjunum og Gylfa Sigfússyni forstjóra Eimskipa.

 Meðal þátttakaenda og frummælenda í málstofunni varðandi verndun hafsins eru leiðtogar og áhrifafólk frá Kyrrahafseyjum sem hafa síðustu daga kynnt sér íslenskan sjávarútveg. Má hér t.d. nefna Henry Puna forsætisráðherra Cookeyja og Tetabo Nakara sjávarútvegsráðherra Kiribati.

Finnland, sem nú fer með formennsku í Norðurskautsráðinu, kynnir helstu stefnumál sín þar sem áhersla er lögð á samvinnu og sameiginlegar lausnir þegar kemur að áskorunum Norðurslóða. Í þessari málstofu mun meðal annarra Kai Mykkänen ráðherra utanríkisviðskipta Finnlands flytja erindi.

„Himalaya svæðið fær sérstakan sess í dagskránni, enda eru margar hliðstæður með Norðurheimsskautinu og háfjöllum Himalaya. Þar mun Borjiginte Ailikun, prófessor og einn stjórnanda Kínversku stofnunarinnar sem rannsakar jökla á Tíbet hásléttunni og Himalaya svæðinu flytja ræðu.

Mögulegum framtíðarsviðsmyndum Norðurslóða verður telft fram í málstofu sem skipulögð er í samstafi við alþjóðlegu IIASA samtökin, Pavel Kabat forstjóri samtakanna flytur aðalerindi.

„Málefni frumbyggja verða ofarlega á baugi, en Carolyn Bennett, ráðherra málefna frumbyggja í Kanada mætir á þingið og flytur ræðu um mikilvægi víðtæks samráðs við alla sem byggja svæðið er horft er til framtíðar Norðurskautsins og um stefnu ríkisstjórnar Justins Trudeau.

Konungsríkið Danmörk mun kynna viðamikið vísindastarf á Norðurslóðum, bæði grunnrannsóknir og tækifærin sem af þeim leiða fyrir samfélag og atvinnulíf. Þar mun Karen Ellemann ráðherra sjávarútvegs, jafnréttis og Norrænnar samvinnu taka til máls,“ segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert