Á að leiða til betri meðferðar

Christopher Clement, vísindaritari Alþjóðageislavarnaráðsins, segir að aukin notkun geislunar ílæknisfræðilegum …
Christopher Clement, vísindaritari Alþjóðageislavarnaráðsins, segir að aukin notkun geislunar ílæknisfræðilegum tilgangi eigi að leiða af sér betri þjónustu við sjúklinga. Allur sé þó varinn góður. mbl.is/Árni Sæberg

Notkun geislunar í læknisfræðilegum tilgangi hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Ekki er hins vegar ástæða til þess að óttast þá þróun, þar sem notkun hennar skili sér langoftast í betri heilbrigðisþjónustu við sjúklinga. Svo segir Christopher Clement, vísindaritari Alþjóðageislavarnaráðsins, ICRP, en hann var staddur hér á landi í síðasta mánuði vegna funda hjá Geislavörnum ríkisins. ICRP gefur meðal annars út ráðleggingar og leiðbeiningar í geislavörnum, og er þeim víðast hvar fylgt til hins ýtrasta og jafnvel teknar upp í löggjöf ríkja.

Á meðan á Íslandsdvölinni stóð flutti Clement meðal annars fyrirlestur sem hann titlaði „Er of mikil læknisfræðileg geislun?“ Hann viðurkennir þó að kafa þurfi dýpra í málin til þess að svara þessari spurningu. „Almennt séð er geislunin ekki of mikil. En þetta er vandasöm spurning, því að það skiptir kannski minnstu máli hver heildarnotkunin er. Það skiptir miklu meira máli hvort sjúklingar njóti góðs af geisluninni eða hvort að hún sé þeim skaðleg. Það virðist vera raunin að geislunin leiði til betri meðferðar í yfirgnæfandi fjölda tilfella og sé því til bóta, þó að stundum verði mistök,“ segir Clement.

Oftar og í stærri skömmtum

Geislun er einkum beitt á tvenns konar hátt í lækningum, annars vegar til greiningar og hins vegar í meðferðarskyni. Röntgenmyndir og sneiðmyndir eru dæmi um hið fyrrnefnda, en geislun er aðallega beitt í meðferðarskyni á krabbamein.

Clement segir að það sé einkum í greiningarhlutanum sem notkun geislunar hafi aukist á síðustu árum og áratugum. „Bæði er verið að nota greiningartækin meira og taka fleiri myndir en áður, en svo hefur tækninni einnig fleygt fram,“ segir Clement og nefnir sem dæmi röntgenmyndir, sem nú sé hægt að taka í þrívídd. „Þróunin sem leiðir af þessu tvennu er að geislun er beitt bæði oftar og í stærri skömmtum en áður.“ Hann áætlar að um fjórir milljarðar mynda séu teknar á hverju ári vítt og breitt um heiminn, og þessi tala fer hækkandi.

Greiningartækni hefur fleygt mjög fram á síðustu árum ognotkun geislavirkra …
Greiningartækni hefur fleygt mjög fram á síðustu árum ognotkun geislavirkra efna hefur aukist sem því nemur. mbl.is/Eggert

Þegar komi að spurningunni hvort læknisfræðileg geislun sé ofnotuð þurfi því einnig að huga að því hvort að verið sé að nýta tæknina eins og best verður á kosið. Clement tekur fram að heilbrigðisstarfsfólk geri sitt besta til þess að tryggja að meðferðin sé sjúklingnum til bóta. „Ef það er ástæða til þess að taka röntgenmynd, þá eiga þau að gera það, og ef ekki, þá er betra að sleppa því ef það hjálpar ekki til við greininguna.“ Ein afleiðingin af hinni auknu notkun sé því betri heilbrigðisþjónusta, og að það megi ekki missa sjónar á því. „Ef sjúklingurinn nýtur góðs af meðferðinni, þá er geislunin ekki of mikil,“ segir Clement.

En er þá möguleiki á að geislun verði „of mikil“? Clement segir að til þess að svo megi verða, þá þurfi annaðhvort að gilda, að sjúklingar bíði skaða af notkuninni, eða þá að þeir séu sendir í rannsóknir þar sem önnur úrræði myndu henta betur til greiningar. „En það mun aldrei duga að horfa bara á heildartöluna um aukna geislun, það þarf alltaf að kafa ögn dýpra í málin. Að því sögðu, má alltaf reyna að gera betur.“

Ógrynni af ráðleggingum til

Og það er þar sem Alþjóðageislavarnaráðið kemur inn í. „Hlutverk okkar er að tryggja að þegar geislun er beitt, að þá sé henni beitt eins vel og eins örugglega og kostur er á.“ Stofnunin sinni því hlutverki með því að gefa út ráðleggingar varðandi geislavarnir, menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsmanna og fleiri þætti sem snúa að þeim. Stofnunin hefur gefið út meira en hundrað skýrslur í þeim tilgangi, en hún fagnar níræðisafmæli sínu á næsta ári. „Það er því komin mikil reynsla á þetta hjá okkur,“ segir Clement. „ICRP gefur út mikið af fræðsluefni, heldur og sækir ráðstefnur og starfar með yfirvöldum og geislavörnum víðs vegar um heiminn.“ Hann tekur þó fram að ráðleggingarnar séu ekki bindandi, enda myndi ICRP ekki hafa heimild til þess. Þær endi þó oft í lögum og reglugerðum ríkja um geislavarnir. „Með því að fylgja þessum ráðleggingum tryggjum við að umhverfi og fólk sé varið eins vel og kostur er.“

Clement segir að áhrif stofnunarinnar á geislavarnir hafi verið mikil. „Fyrir það fyrsta erum við einu alþjóðasamtökin sem hafa gefið út ráðleggingar um þessi efni, þannig að hvert sem þú ferð er fólk í geislavörnum að nota sömu staðla, sömu tækni. Það stuðlar að því að auðvelt er að eiga í alþjóðlegu samstarfi um geislavarnir.“

Þarf að huga að öryggi margra

Þá nefnir Clement dæmi þess að ráðleggingar stofnunarinnar hafi ýtt undir framþróun í greiningartækni.

„Það sást til dæmis í lok 20. aldarinnar að geislaskammtar voru að verða stærri, til dæmis í tölvusneiðmyndum, vegna þess að myndgæðin voru að verða meiri. Það má hins vegar sjá beina samsvörun á milli þess að ICRP lagði þá til að skammtarnir yrðu gerðir minni og þess að framleiðendur tækjanna fóru að hanna tæki sem gáfu frá sér minni geislun, án þess þó að skerða myndgæðin sem höfðu fengist.“

Clement segir að slík þróun skipti miklu máli, því að tækjabúnaðurinn er flókinn, og að ef hann er ekki hannaður til þess að senda frá sér minni geislaskammta, þá er ekkert sem starfsfólkið geti gert til þess að gera þá minni, alveg sama hversu vel það er þjálfað í notkun tækjanna.

Clement tekur fram að þessar öryggisráðstafanir geti skipt talsverðu máli, ekki síst fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem vinni við þessi greiningartæki. Þar geti aukinn fjölda mynda skipt máli. „Það má ekki gleyma því að heilbrigðisstarfsfólkið verður sjálft fyrir brotabroti af þeirri geislun sem hver og einn sjúklingur fær, en það er kannski að sjá um marga sjúklinga og geislunin getur safnast þegar saman kemur.“

Það skipti því máli að hugað sé að öryggi sjúklinga, heilbrigðisstarfsfólks, og í sumum tilfellum öryggi annarra umönnunaraðila og jafnvel fjölskyldumeðlima þegar sjúklingurinn fer heim, þar sem í sumum tilfellum, þegar sjaldgæfari úrræðum er beitt, getur enn eimt eftir af geislavirkni í honum.

Færist í vöxt í þróunarríkjum

Spurður um aðstöðumun milli ríkra og fátækari ríkja segir Clement að notkun geislatækni sé mest í þróaðri ríkjum heims, en merki séu um að þróunarríki séu farin að nýta sér tæknina meira, meðal annars vegna þess að greiningartækin eru að verða ódýrari.

„ICRP getur ekki haft bein áhrif á það hverjir hafa efni á því að nota þessa tækni. Við viljum hins vegar tryggja að ef samfélag fær til dæmis sneiðmyndavél, að þeir sem noti hana séu nægilega vel þjálfaðir til þess að tryggja öryggi allra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert