Facebook „muni eftir“ nektarmyndum

Tilraunin fer fram í Ástralíu.
Tilraunin fer fram í Ástralíu. AFP

Facebook er að prófa nýtt kerfi þar sem notendur geta sent sjálfum sér sínar eigin nektarmyndir. Með þessu vonast samskiptamiðillinn til þess að árangur náist í baráttunni gegn hefndarklámi, eða stafrænu kynferðisofbeldi.

Eins konar fingrafar myndanna verður geymt til að koma í veg fyrir að þær verði afritaðar og þeim deilt af fyrrverandi elskhugum. 

Tilraunin fer fram í Ástralíu þar sem rannsóknir benda til að ein af hverjum fimm konum á aldrinum 18 til 45 ára hafi hugsanlega lent í stafrænu kynferðisofbeldi.

Bent hefur verið á að vandamálið nái út fyrir Facebook, þar á meðal til miðla á borð við WhatsApp og Instagram.

„Alls engin lausn“

Clare McGlynn, prófessor við Durham-lagaháskólann í Bretlandi, segir að um frumlega tilraun sé að ræða.

„Ég fagna því að Facebook sé að reyna að takast á við þetta vandamál því fyrirtækið hefur oft verið lengi að bregðast við ýmsum málum. Þessi aðferð á samt sem áður bara eftir að virka fyrir nokkrar manneskjur og þegar við horfum á þann fjölda nektarmynda sem er tekinn og honum dreift á hverjum degi, þá er þetta alls engin lausn,” sagði hún við BBC.

Greint var frá því í mars að um 30 þúsund manna einkagrúppa á Facebook, Marine United, deildi reglulega ljósmyndum af nöktum konum.

Facebook brást við með því kynna nýja aðgerð sem fólst í því að merkja myndir sem fyrirtækinu var tilkynnt um að fælu í sér hefndarklám, með því að nota tækni þar sem hægt er að bera saman ljósmyndir. Þannig átti að koma í veg fyrir að hægt yrði að dreifa myndunum. Einnig var Facebook-reikningum lokað með slíkum myndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert