Óánægja með rangar upplýsingar hjá Google

Frá kirkjunni þar sem Devin Patrick Kelley myrti 26 manns …
Frá kirkjunni þar sem Devin Patrick Kelley myrti 26 manns á sunnudag. AFP

Forsvarsmenn tæknirisans Google segja að þeir séu ekki ánægðir með það að leitarniðurstöður í fréttaleitarvél Google hafi birt ósannar upplýsingar um fjöldamorðingjann Devin Patrick Kelley, sem myrti 26 í kirkju í Texas í Bandaríkjunum á sunnudag.

Leitarvélin birti nokkrar niðurstöður sem voru byggðar á „vinsælum stöðuuppfærslum á Twitter“. Þar var því ranglega haldið fram að Kelley væri múslimi og vinstri öfgamaður.

Danny Sullivan, talsmaður Google, sagði að hin ósönnu tíst hefðu farið of ofarlega á algrím Google en það yrði lagað í kjölfarið á þessu.

„Við viljum gera þetta rétt,“ skrifaði Sullivan á Twitter.

Google var gagnrýnt í síðasta mánuði eftir að helstu fréttir sem tengdust leit á hryðjuverkinu í Las Vegas voru ósannar. Sullivan sagði að algríminu hefði verið breytt í kjölfarið á því.

„Við skoðuðum okkar mál eftir þá gagnrýni og helstu fréttir okkar gáfu blekkjandi niðurstöðu eftir skotárásina í Las Vegas,“ skrifaði Sullivan.

Núna birtust hins vegar niðurstöður á Google þess efnis að Kelley hefði verið meðlimur í stuðningsmannahópi Bernie Sanders. Átti hann samkvæmt þeim að hafa snúist til íslamstrúar og þá var því haldið fram að Kelley væri í hópi „öfga vinstri“ aðgerðasinna, sem kenndir eru við Antifa.

Sullivan tók fram að ósönnu færslurnar á Twitter hefðu bara birst á fréttasíðu Google í stutta stund. Þá hefðu þær birst fyrir neðan staðreyndir. Áréttaði Sullivan að verklagið yrði lagað í framtíðinni.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert