Loftslagsbreytingar eiga eftir að versna

Reyk leggur frá Niederaussem-orkuverinu í nágrenni Bergheim í Vestur-Þýskalandi.
Reyk leggur frá Niederaussem-orkuverinu í nágrenni Bergheim í Vestur-Þýskalandi. AFP

Loftslagsbreytingar hækka sífellt hitastig jarðar og færast fyrir vikið sífellt nær því að verða óafturkræfar. Þessu vöruðu vísindamenn við á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Bonn í Þýskalandi í dag. 

„Loftslagsbreytingar eru staðreynd. Þær eru hættulegar og þær eiga eftir að versna heilmikið,“ sagði Johan Rockstrom, framkvæmdastjóri vistverndarstofnunarinnar Stockholm Resilience Centre.

Sagði hann vísindamenn hafa aflað vísbendinga síðustu tvö ár um að jarðarbúar séu nú á hraðleið með að gera ástandið óafturkræft.

„Hugsið um einhvern sem hallar sér aftur í stól og lætur hann halda jafnvægi á tveimur fótum,“ lagði Sybren Drijfhout, prófessor við University of Southampton, til. Jafnvægispunkturinn er þegar hann er nákvæmlega á þeim stað. Örlítil breyting – ef aðeins er ýtt á – þá fellur hann niður.“

Hvað loftslagsbreytingarnar varði, sé farið yfir þessi  ósýnilegu og óafturkræfu mörk geti það valdið því að ástandið versni hratt.

Of seint að stöðva bráðnunina

Segir AFP-fréttastofan suma vísindamenn t.a.m. telja yfirborð jarðar hafa náð þeim hita að ekkert geti hindrað ísbreiðuna á vesturhluta Suðurskautslandsins í að bráðna, en þar er að finna nóg af frosnu vatni til að hækka yfirborð sjávar um 6-7 metra.

Sú bráðnun kunni að taka 1.000 ár, en sé þetta rétt muni ísbreiðan bráðna óháð því hversu hratt mannkyni takist að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem nú halda áfram að stuðla að hlýnun jarðar.

Rockstrom og hópur annarra vísindamanna hafa borið kennsl á slíka punkta að því er fram kemur í skýrslu sem kynnt var á fundi Sameinuðu þjóðanna í dag.

Segja vísindamennirnir hættu á að breytingarnar, þó að sumar muni eiga sér stað yfir árþúsundatímabil, verði óafturkræfar.

Hækki hitastig um 1-3 gráður kunna stórir hlutar Grænlandsjökuls að bráðna, kóralrif hverfi sem og  fjöldi jökla á fjöllum.

Hækki hitastig um 3-5 gráður breytast stórir hlutar Amazon-regnskóganna í hitabeltisgresjur, hægja kann á hafstraumum sem hafa áhrif á veðurfar beggja vegna Atlantshafs sem muni einnig hafa áhrif á tíðni og ofsa El Nino-veðurfyrirbærisins.

Hið jákvæða sé hins vegar að Sahel-hluti Norður-Afríku gæti orðið gróðursæll.

Sjór hækkar um tugi metra

Hækki hitastig jarðar um meira en 5 stig, sem telst ólíklegt en ekki ómögulegt, mun eystri hluti Suðurskautslandsins bráðna og sjór mun hækka um tugi metra.

Sífrerinn á túndrunni mun einnig bráðna við þessar aðstæður, en hann geymir nú nær tvisvar sinnum meiri koltvísýring en er að finna í andrúmsloftinu.

Segja vísindamennirnir jarðarbúa þegar eiga erfitt með að fást við það mikla magn koltvísýrings og metangass sem þegar hafi verið sleppt út í andrúmsloftið.

„Það er mikilvægt að minna alla á ástæðu þess að tugir þúsunda eru að funda í Bonn,“ sagði Hans Joachim Schellnhuber, forstjóri Potsdam-stofnunarinnar í loftslagsrannsóknum og einn höfunda skýrslunnar. „Það er út af þessari fordæmislausu hættu sem mannkyni stafar af hlýnun jarðar, líkt og vísindin hafa sannað. Þessi erfiði sannleikur,“ bætti hann við, „kann að neyða okkur til að endurskoða skammtímaþægindi og neysluhyggju sem hefur tíðkast frá því um miðja 20 öld.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert