Þörf á hertum aðgerðum gegn plastógninni

Plastúrgangur flýtur hér úti fyrir Roatan í Hondúras í september …
Plastúrgangur flýtur hér úti fyrir Roatan í Hondúras í september á þessu ári. Engin alþjóðleg lög banna að plast sé losað á haf út frá landi, en Sameinuðu þjóðirnar vilja nú athuga hvort ástæða sé til að setja slíkt bann. AFP

Algjört bann við plastmengun kann að verða samþykkt á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. BBC segir ríki heims nú vera beðin að hugleiða að festa í lög bann við því að plastúrgangur fari í hafið.

Eins og er, er skipum bannað að henda plasti í sjóinn, en engin alþjóðleg lög banna hins vegar að plast sé losað á haf út frá landi. Sérfræðingar segja plastúrgang í höfum jarðar vera efni sem þurfi að festa í alþjóðleg milliríkjalög, enda stafi veruleg ógn af plastmengun sem ekki virði nein landamæri.

Sendifulltrúar undirbúa nú fund umhverfisráðherra ríkja Sameinuðu þjóðanna sem fara á fram í Nairobi í Kenýa í næstu viku og eru þeir sagðir sammála um að þörf sé á hertum aðgerðum til að taka á plastógninni.

Það er því verið að kanna grundvöllinn fyrir alþjóðaaðgerðum til að taka á vandanum.

Þarf að rannsaka hvaðan plastið kemur

Bandaríkin hafa boðist til að taka þátt, en þarlend stjórnvöld eru almennt treg til að fallast á setningu alþjóðalaga.

Maður ríður hesti sínum í gegnum rusl sem borist hefur …
Maður ríður hesti sínum í gegnum rusl sem borist hefur á land á Omoa-ströndinni í Hondúras. AFP

Ein hugmyndin er að samkomulagið endurspegli Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum og að settar verði fram langtímaáætlanir sem verði lagalega bindandi, þó að þjóðunum sjálfum sé í sjálfsvald sett hvort þær taki þátt.

Umhverfisverndarsinnar segja þörf á auknum rannsóknum til að sýna hversu mikið plast er að berast til sjávar og hvaðan það er að koma.

Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar skuldbundið sig til að draga verulega úr plastúrgangi fyrir árið 2025, en Noregur sem leiðir það verkefni segir að langtímaverkefnið verði að vera að hætta með öllu með plastúrgang. Þá sé einnig þörf á að hreinsa upp það plast sem þegar er við strendur landa um heim allan. Slíkt sé mun hagkvæmara og betra fyrir umhverfið en hreinsunaraðgerðir á risavöxnum skala, líkt og þær sem farið hefur verið í á Kyrrahafi. Ástæða sé til að óttast að slíkar aðgerðir geti valdið lífríkinu skaða.

Mikilvægt að hreinsa strendur af plasti

Það sé hins vegar verulega mikilvægt að hreinsa plast af ströndum þar sem það brotni niður í örplast, sem rati út í vistkerfið og geti valdið verulegum skaða. 

„Það eru margar spurningar sem þarf að svara,“ hefur BBC eftir einum fulltrúanna. „Á þetta að vera lagalega bindandi samkomulag sem bannar losun plasts af landi? Ef ekki, hvaða yfirgripsmiklu aðgerða á þá að grípa til?“

Kína, sem er eitt þeirra ríkja sem talið er valda hvað mestri plastmengun í dag, er sagt hikandi við að samþykkja alþjóðleg lög eða reglur um málið, á meðan Indland og Indónesía sem einnig menga mikið eru sögð jákvæðari gagnvart hugmyndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert