Plast í maga risaskjaldböku

Þegar risaskjaldbaka fannst lasburða undan ströndum Kenía var fljótlega ljóst að hún hefði gleypt eitthvað sem olli heilsubresti hennar. 

Við skoðun uppgötvaðist að skjaldbakan hafði gleypt plast í sjónum. Hún dvelur nú í athvarfi fyrir sjávardýr og þar dvelja einnig aðrar skjaldbökur sem glíma við sama vandamál.

Umhverfisverndarsinnar í Kenía reyna nú að upplýsa fólk um þá hættu sem dýralífi sjávar stafar af plastmengun. 

Um 9 milljónir tonna af plasti enda í sjónum á hverju ári. Umfangið er þegar farið að skaða lífríkið og eiga vandamál þessu tengd aðeins eftir að aukast verði ekkert að gert. 

„80% af öllu því rusli sem fer í sjóinn á hverju ári er plast,“ segir Lisa Svensson sem fer fyrir sjávarverndarverkefni Sameinuðu þjóðanna. 

Íbúar í bænum Watumu í Kenía gera hvað þeir geta til að draga úr plastrusli í sjónum. Þeir ganga strendur og tína upp rusl og dýraathvarfið, þar sem risaskjaldbökurnar er að finna, stendur fyrir fræðsluverkefnum fyrir unga bæjarbúa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert