Fæddist með hjartað utan líkamans

Vanellope Hope Wilkins er tæplega mánaðargömul.
Vanellope Hope Wilkins er tæplega mánaðargömul. Skjáskot/YouTube

Barn sem fæddist með hjarta utan líkamans er á batavegi eftir tímamótaaðgerð á Glenfield-sjúkrahúsinu í Leicester. 

Vanellope Hope Wilkins var tekin með keisaraskurði fyrir þremur vikum. Hún er ekki með bringubein og í ómskoðun á meðgöngu kom í ljós að hjartað var ekki í líkama hennar. 

Í ítarlegri frétt BBC um málið segir að tilfelli sem þessi séu mjög sjaldgæf og að ekki sé vitað til þess í Bretlandi að annað barn með sambærilegan fæðingargalla hafi lifað af.

Litla stúlkan þurfti að gangast undir þrjár aðgerðir þar sem hjartað var fært inn í líkama hennar. Foreldrarnir segja það hafa verði skelfileg tíðindi að heyra að hjartað væri ekki í brjóstkassa stúlkunnar. Þau hafi ekki getað ímyndað sér hvað það myndi hafa í för með sér. „Okkur var ráðlagt að eyða fóstrinu og að líkurnar á því að hún myndi lifa væru næstum engar - enginn trúði því að hún myndi lifa af nema við,“ segir Maomi Findlay, móðir stúlkunnar. Hún hafi hins vegar ekki getað hugsað sér að binda enda á meðgönguna.

Er Vanellope litla kom í heiminn þann 22. nóvember tók teymi 50 sérfræðinga á móti henni á sjúkrahúsinu. Innan við klukkustund eftir fæðinguna fór hún í sína fyrstu skurðaðgerð. Í þriðju aðgerðinni var skinn af líkama litlu stúlkunnar sett yfir gat á bringu hennar. 

Hjartaskurðlæknirinn Frances Bu'Lock segir að útlitið hafi ekki verið bjart fyrir stúlkuna áður en hún fæddist. Hins vegar hafi aðgerðirnar gengið vel. Stúlkan hafi reynst baráttujaxl.

Hún á þó eftir að gangast undir margrar aðgerðir til viðbótar, að því er læknar hennar telja. Börn sem fæðst hafa með hjarta utan líkamans í Bandaríkjunum hafa sum hver spjarað sig vel. 

Frétt BBC í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert