Rannsaka netárás á þýsk ráðuneyti

Þýska varnarmálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið urðu fyrir árásum hakkara sem komust …
Þýska varnarmálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið urðu fyrir árásum hakkara sem komust inn í innri net ráðuneytanna. Mynd úr safni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Þýska varnarmálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið urðu fyrir árásum hakkara sem komust inn í innri net ráðuneytanna. Málið er nú til rannsóknar hjá yfirvöldum í Þýskalandi að því er BBC greinir frá.

Þýskir fjölmiðlar telja að hópur rússneskra hakkara, sem gengur undir nöfnunum Fancy Bear og APT28 beri ábyrgð á árásunum. Hópurinn er talinn bera ábyrgð á fjölda annarra netárása á Vesturlöndum, m.a. afskiptum af bandarísku forsetakosningunum í nóvember 2016.

Fyrst varð vart við netárásina í desember á síðasta ári, en að sögn þýsku DPA fréttastofunnar er talið að hún kunni að hafa varað í allt að eitt ár.

Er Fancy Bear hópurinn sagður hafa notað vírusa til að komast inn í innra samskiptanet þýska ríkisins.

Staðfesti talsmaður þýska innanríkisráðuneytisins í gær að bæði öryggislögregla og leyniþjónusta rannsaki nú málið. Talið væri þó að um einangrað tilfelli væri að ræða og að búið væri að ná stjórn á stöðunni. Hann neitaði hins vegar að tjá sig um fullyrðingar um Rússar stæðu að baki árásinni.

Fancy Bear var kennt um sambærilega árás á neðri deild þýska þingsins árið 2015 og er hópurinn einnig talinn hafa staðið að árásum á flokk kanslarans, Kristilega demókrata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert