Ef enginn reykti þá fengju miklu færri krabba

Reykingar drepa.
Reykingar drepa. AFP

Vísindamenn á Norðurlöndunum hafa reiknað út hversu mörg krabbameinstilfelli væri hægt að koma í veg fyrir á næstu 30 árum með því að draga úr reykingum. Rannsóknin, sem Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands stóð meðal annars að og birtist nýverið í vísindatímaritinu European Journal of Cancer, staðfestir að nauðsynlegt sé að efla forvarnir gegn reykingum enn frekar, segir í fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

„Það eru ekki ný tíðindi að reykingar séu hættulegar og valdi krabbameinum, en vísindamenn beina nú sjónum að þeim fjölda krabbameinstilfella sem hægt er að koma í veg fyrir ef fólk hættir að reykja, eða byrjar ekki að reykja.

Reiknilíkanið Prevent var notað við útreikningana sem byggjast meðal annars á tölum um reykingavenjur, fólksfjölgun og krabbamein sem geta orsakast vegna reykinga, eins og krabbamein í lungum, vélinda og þvagblöðru.

Mjög hefur dregið úr reykingum síðustu áratugi. Árið 2014, þegar rannsóknin hófst, reyktu samt 14 prósent Íslendinga daglega. Ef við ímyndum okkur að allir Íslendingar hefðu hætt að reykja árið 2014, væri komið í veg fyrir 5.300 krabbameinstilfelli hér á landi fyrir árið 2045,“ segir í fréttatilkynningu. 

„Auðvitað er ekki raunhæft að allir hætti skyndilega að reykja. En þarna sjáum við hve mikla möguleika við höfum á að koma  í veg fyrir krabbamein vegna reykinga,“ segir Dr. Therese M. L. Andersson, lektor við Karolínsku stofnunina, en Therese leiddi rannsóknina.

„Niðurstöðurnar sýna að hægt er að koma í veg fyrir þúsundir krabbameinstilfella ef færri reykja, og því er mikilvægt að gera nýjar áætlanir til að sporna gegn reykingum,“ segir hún, í fréttatilkynningu.

Einnig var reiknað út hvað myndi gerast ef hlutfall reykingamanna lækkaði þannig að árið 2030 væri það komið niður í fimm prósent og þrjú prósent árið 2040. Þetta myndi koma í veg fyrir 2.600 krabbameinstilfelli á Íslandi fram til ársins 2045.

Rannsakendur hafa einnig kannað áhrif tiltekinna þekktra forvarnaraðgerða gegn reykingum. Þar er um að ræða að hækka verð á tóbaki, banna reykingar á öllum vinnu- og þjónustustöðum, banna að tóbak sé sýnilegt á sölustöðum, staðla merkingar á tóbaksumbúðum og að hleypa af stokkunum herferðum í fjölmiðlum.

Ísland var fyrsta land heims til að banna að tóbak væri sýnilegt á sölustöðum og við stöndum okkur nokkuð vel varðandi flestar aðrar ofanskráðar forvarnaraðgerðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert