Gátan um Stonehenge ráðin að hluta

Enn er á huldu hvert hlutverk Stonehenge var en þar …
Enn er á huldu hvert hlutverk Stonehenge var en þar eru tugir manna grafnir. AFP

Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir í heila öld hefur hingað til lítið miðað áfram í því að leysa að fullu ráðgátuna um hver byggði hið 5.000 ára stórvirki Stonehenge á Englandi og í hvaða tilgangi. Lítið var einnig vitað um þá sem grafnir eru innan steinhringsins mikla. Fyrir löngu komust fornleifafræðingar að því að lík fólksins voru brennd því líkamsleifarnar sem þar hafa fundist samanstanda aðeins af ösku og beinbrotum. 

Tímamótauppgötvun Christophe Snoeck, nemanda við Oxford-háskóla, hefur nú leitt í ljós að fólkið kom líklega alla leið frá Wales í vesturhluta Bretlands, frá sama stað og blágrýtið sem notað var í stólpana, sem mynda Stonehenge, á uppruna sinn. Líklega hefur grjótið verið flutt um 240 kílómetra leið.

Sumir þessara ferðalanga, sem gætu hafa aðstoðað við flutning grjótsins, voru svo brenndir eftir andlátið og aska þeirra grafin á svæðinu, að því er Snoeck og rannsóknarteymi hans telur. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í vísindatímaritinu Scientific Reports nýverið.

Þar kemur fram að mögulega hafi einhver látist við byggingu Stonehenge en aðrir hafi einfaldlega sest að á svæðinu og endað þar ævi sína. 

Auðkenni sem varðveitast við bruna

Að þessu komst Snoeck með því að rannsaka efni í beinaleifum sem grafnar voru. Efnið, strontíum, þolir þann háa hita sem myndast við bruna og við hann varðveitast vel ákveðin auðkenni þess. Hefur uppgötvun Snoecks því opnað gullnámu fyrir fornleifarannsóknirnar í Stonehenge.

Bruni við háan hita eyðir öllum lífrænum efni, m.a. erfðaefni, DNA. „En öll ólífræn efni halda sér og í líkamsleifunum er því að finna gríðarlegt magn upplýsinga,“ segir Snoeck. „Með því að mæla strontíum er gerlegt að leggja mat á uppruna fæðunnar sem við borðum, sérstaklega plantna.“

Plöntur frásoga strontíum úr jarðveginum og efnið fer svo í bein okkar og því er hægt að greina hver heimkynni plantnanna eru.

Vísindamennirnir rannsökuðu brot úr höfuðkúpum um 25 manna sem grafnir voru við Stonehenge fyrir um 3.000 árum. Tíu af þeim höfðu að minnsta kosti hluta ævi sinnar búið á öðru svæði. 

Fornleifafræðingar vissu að blágrýtið sem notað var til að byggja Stonehenge kom frá Wales og í ljós kom að plönturnar sem tímenningarnir höfðu á einhverjum tímapunkti borðað voru einnig þaðan.

Vísindamennirnir telja einnig, eftir rannsóknir á trjáleifum sem notaðar voru til að brenna líkin, að einhverjir sem lagðir voru til hvílu við Stonehenge hafi verið brenndir í vesturhluta Bretlands og aska þeirra svo flutt.

Margt er enn á huldu um Stonehenge, m.a. um hlutverk staðarins en nýjustu niðurstöður benda til að fólk frá Preseli-fjöllunum í Vestur-Wales hafi ekki aðeins útvegað grjótið til byggingarinnar heldur hafi flutt það á staðinn og svo verið grafið þar.

Talið er að á bilinu 150-240 manns hafi verið grafnir í Stonehenge.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert