Oftar rignir á jökulinn að vetri

Bráðið jökulvatn streymir ofan af Grænlandsjökli og út í hafið.
Bráðið jökulvatn streymir ofan af Grænlandsjökli og út í hafið. mbl.is/RAX

Það rignir nú oftar á Grænlandi en áður sem hefur áhrif á bráðnun jökla þess. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar. Höfundar hennar segja það hafa komið á óvart að rigning sé nú tekin að falla yfir hörðustu vetrarmánuðina.

Í frétt BBC um málið segir að vel sé fylgst með Grænlandsjökli því hann geymi gríðarlegt magn frosins ferskvatns. Ef allur ísinn myndi bráðna myndi sjávaryfirborð hækka um sjö metra og ógna strandbyggðum um allan heim.

Að vetri fellur úrkoma á þessum slóðum oftast sem snjókoma frekar en rigning. Það hefur jákvæð áhrif á afkomu jökulsins og vegur upp á móti bráðnuninni sem á sér stað er hlýnar að sumri.

Vísindamenn skoðuðu gervitunglamyndir af jöklinum og greindu hvar mesta bráðnunin væri að eiga sér stað. Þeir keyrðu þær upplýsingar svo saman við gögn úr tuttugu sjálfvirkum veðurstöðvum. Rannsóknartímabilið var árin 1979-2012. Niðurstaða rannsóknarinnar, sem birt er í vísindatímaritinu The Cryosphere, er sú að á fyrstu árum rannsóknartímabilsins hafi rignt um það bil tvisvar að vetri. Rigningarnar urðu svo tíðari og við lok tímabilsins eða árið 2012 rigndi tólf sinnum yfir veturinn. Í um 300 tilvikum á rannsóknartímabilinu olli rigning því að ísinn bráðnaði. Það sem kemur mest á óvart er að í sífellt fleiri tilfellum á bráðnunin sér stað að vetri til. 

Aðalhöfundur rannsóknarinnar, Marilena Oltmanns hjá stofnuninni Geomar, segir að það hafi komið vísindamönnunum á óvart að það rigni á veturna á Grænlandi. Rigning að vetri bræðir ekki aðeins jökulísinn. Hún frýs og breytir yfirborði hans, gerir það sléttara og dekkra sem aftur verður til þess að bráðnunin verður hraðari yfir sumartímann. Eftir því sem ís er dekkri þeim mun meira drekkur hann í sig hita frá sólinni. 

Að sögn vísindamannanna skýrir þetta m.a. þá hröðu bráðnun sem er að eiga sér stað á sumrin.

Þó að Grænland sé afskekkt og þar búi fáir er það gríðarlega mikilvægt í alþjóðlegu tilliti: Bráðnun Grænlandsjökuls hefur áhrif á alla heimsbyggðina. Síðustu ár hefur jökullinn hopað, þ.e. hann bráðnar hraðar en á hann bætist af snjó að vetri. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert