Telja Nessie almenna skynvillu

Ljósmynd sem læknirinn Robert Kenneth Wilson er sagður hafa tekið …
Ljósmynd sem læknirinn Robert Kenneth Wilson er sagður hafa tekið af Loch Ness-skrímslinu árið 1934.

Fræðimenn við St Andrews-háskólann í Skotlandi telja að ástæðuna fyrir því að ýmsir hafi talið sig hafa séð einhvers konar skrímsli í eða við Loch Ness-stöðuvatnið þar í landi megi rekja til steingervinga sem fundist hafa í gegnum tíðina af risaeðlum.

Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph þar sem rifjað er upp að nútímahugmyndir um skrímsli í Loch Ness-vatninu eigi upphaf sitt árið 1933 þegar George nokkur Spicer hafi ekið bifreið sinn eftir vegi við vatnið og talið sig sjá fyrirbæri með langan háls hlaupa yfir veginn fyrir framan bifreiðina og láta sig hverfa.

Margar tilraunir hafa síðan verið gerðar til þess að finna Loch Ness-skrímslið, sem kallað hefur verið Nessie, en án árangurs. Ýmsar myndir hafa komið fram sem sagðar hafa verið af skrímslinu en þær hafa verið afgreiddar sem svindl eða af einhverju öðru.

Fræðimennirnir við St Andrews-háskólann komust að þeirri niðurstöðu að eftir að fyrstu risaeðlubeinin fundust og voru sýndar á söfnum í Bretlandi á fyrri hluta 19. aldar hafi fjöldi tilkynninga um að fólk hefði séð fyrirbæri með langan háls stóraukist.

Þrátt fyrir að sögur um sæskrímsli hefðu þekkst öldum saman hafi einungis um 10% þeirra fjallað um skrímsli með langan háls. Þegar Spicer hafi talið sig sjá einhvers konar skrímsli við Loch Ness hafi um helmingur allra slíkra tilkynninga verið á þá leið.

Flest „skrímsli“ fyrir 1820 í ætt við snáka

Rannsókn fræðimannanna þykir benda til þess að einhvers konar almenn skynvilla hafi á þessum tímapunkti verið búin að grípa um sig með þeim afleiðingum að allt sem ekki fannst skýring á og buslaði til dæmis í vatni hafi verið tengt við risaeðlur.

Haft er eftir dr. Charles Paxton að eftir að steingervingar af risaeðlum sem lifðu í vatni hafi fundist á 19. öld virtist það hafa haft áhrif á það sem fólk taldi sig sjá í vötnum. Þessi kenning var fyrst sett fram 1968 af rithöfundinum L Sprague De Camp.

Hins vegar hefur kenning Champs ekki verið rannsökuð fyrr en nú. Paxton, sem er stærðfræðingur að mennt, fékk til samstarfs við sig við rannsóknina Darren Naish, steingervingafræðing við Southampton-háskóla í Englandi.

Farið var í gegnum 1.688 ritaðar heimildir frá tímabilinu 1801-2015 um skrímsli sem fólk taldi sig hafa séð, þar á meðal í bókum og dagblöðum. Sleppt var hins vegar augljósum blekkingum. Náðu slíkar tilkynningar hámarki 1930-1934. Það er um það leyti sem Spicer taldi sig hafa séð skrímsli við Loch Ness-vatninu.

Farið var að sýna steingervinga risaeðla frá því í kringum árið 1820 en fyrir þann tíma voru flestar tilkynningar um skrímsli meira í ætt við snáka. En eftir því sem tilkynningum um skrímsli með langan háls fjölgaði fækkaði tilkynningum um sæslöngur.

Greint er frá rannsókninni í vísindaritinu Earth Sciences History.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert