Prumpa hvalir og losa metan?

Vísindavefurinn segir að þrátt fyrir mikla líkamsstærð hvaldýranna sé ekkert …
Vísindavefurinn segir að þrátt fyrir mikla líkamsstærð hvaldýranna sé ekkert sem bendi sterklega til þess að gaslosun hvala hafi slæm áhrif á umhverfið, „enda sé fjöldi flestra hvalategunda langtum minni en fyrir upphaf hvalveiða. Mynd úr safni af hval á ferð í Eyjafirði. Morgunblaðið/Sigurður Ægisson

Ekki er þekkt hversu mikið metan hvalir losa, þar sem ekki er sú að það er ekki hlaupið að því að rannsaka vindgang þeirra þar sem dýrin dvelja neðansjávar stærsta hluta ævinnar. Þetta kemur fram í svörum Vísindavefsins við fyrirspurn um það hvort að hvalir prumpi og hvort þeir losi þá mikið af metangasi sem valdi hlýnun jarðar. Líklegar verði þó að teljast að skíðishvalir losi metan heldur en tannhvalir.

Segir í svarinu að langflest spendýr og fjölmörg skriðdýr prumpi og ropi. „Prump og rop stafar af lofttegundum sem safnast fyrir í meltingarvegi dýra“ og af þeim gastegundum sem finnist í prumpi og ropi sé metan áhrifamesta gróðurhúsalofttegundin.

Grasbítar séu best þekkti hópurinn, sérstaklega jórtrandi búfénaður, sem losar mun meira af metani en kjötætur þar sem plönturnar eru tormeltar.

Tilheyra ættbálki klaufdýra

Þar sem hvaldýr tilheyri ættbálki klaufdýra og megi velta því fyrir sér hvort hvalir losi metan og hvort losunin sé mikil eða lítil. Segir í svarinu að áður en forfeður hvala héldu til sjávar hafi þeir hins vegar verið farnir að nærast á dýrum og höfðu að mestu sagt skilið við plöntuætulífsstílinn, auk þess sem ólíkt ættingjum sínum á landi nærist hvalir fyrst og fremst á fiski og smáum sviflægum krabbadýrum eins og átu.

Fiskurinn sem hvalir éti sé nokkuð auðmeltanlegur en það sama sé ekki hægt að segja um átuna sem hafi sterka kítínskurn. „Þeir hvalir sem helst éta sviflæg krabbadýr eru skíðishvalir,“ segir í svarinu  og þá séu meltingarkerfi hvala og jórturdýra nokkuð áþekk. Líkt og jórturdýr hafi hvalir fjórskiptan maga og komið hafi í ljós að gerjun eigi sér stað í formaga hvala líkt og hjá náfrændum þeirra. Þá hafi  rannsóknir einnig sýnt að í formaga hvala sé að finna flokkunarfræðilega svipaða bakteríuhópa og finnast í vömb jórturdýra.

„Gerlaflóra skíðishvala er þó mun áþekkari þeirri sem finnst í jórturdýrum en gerlaflóra tannhvala. Það bendir til að skíðishvalir séu líklegri til að losa meira magn af metani en tannhvalir,“ segir í svarinu.

Ekkert sem bendir til slæmra áhrifa á umhverfið

Óvissa sé  engu að síður þó nokkur, en ljóst verði að teljast að skíðishvalir séu mun líklegri til að framleiða mikið metan heldur en tannhvalirnir. „Líklega má rekja það til ólíkrar fæðu þar sem skíðishvalir þurfa margir að melta tormeltanlegar kítínskeljar átunnar, en til þess er gerjun mikilvæg, á meðan tannhvalir nærast mestmegnis á auðmeltanlegri fiski.“

Þrátt fyrir mikla líkamsstærð hvaldýranna sé hins vegar ekkert sem bendi sterklega til þess að gaslosun hvala hafi slæm áhrif á umhverfið, „enda er fjöldi flestra hvalategunda langtum minni en fyrir upphaf hvalveiða. Fjölmargar dýrategundir, bæði meðal skriðdýra og spendýra, losa mikið metan samhliða meltingu fæðu sinnar. Sem dæmi losa krókódílar  og risasnákar mikið af metani, einnig jarðsvín og mauraætur. Því er ljóst að metanlosun er hluti af eðlilegri hringrás kolefnis á jörðinni. Líklega eru áhrif þessara metanlosandi dýra hverfandi samanborið við þá gríðarlegu losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af nautgriparækt og jarðefnaeldsneytisbruna flugvéla, bíla og verksmiðja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert