Rauðglóandi leyndarmál afhjúpuð

AFP

Sólfar bandarísku geimferðastofnunarinnar (NASA) hefur síðustu daga sent „stórbrotið safn“ af gögnum um ofurheita efnishjúpinn umhverfis sólina. Sólfarinu Parker sem er á stærð við lítinn fjölskyldubíl var skotið á loft í ágúst í fyrra.

Parker kemst næst sólu í þessari atrennu í aðeins sex milljón kílómetra fjarlægð. Á næstu sjö árum mun sólfarið fara nokkrum sinnum fram hjá þessum meginhnetti sólkerfis okkar; ljós- og hitagjafanum mikla.

Þess er vænst að gögnin sem rannsóknarfarið safnar og miðlar til vísindamanna á jörðu niðri muni efla skilning mannsins á sólvindum og rafsegulstormum sem valdið geta usla á byggðu bóli, meðal annars með því að slökkva á raforkudreifikerfum.

Ráðgáta um sólkórónu

Ein ráðgátan varðar sólkórónuna sjálfa sem er við sínar milljón gráður margfalt heitari en sjálft yfirborð sólarinnar sem er 6.000 °C.

Stangast það á við það viðtekna, að búast megi við að hlutur kólni eftir því sem hann fari lengra frá hitauppsprettu sinni.

„Kórónan hefur fundið aðferð til að hita sig upp. Við erum að skoða þá eðlisfræðilegu ferla sem gera það kleift,“ segir Alexis Rouillard, vísindamaður hjá frönsku vísindarannsóknastofnuninni (CNRS) og meðhöfundur einnar af fjórum greinum í tímaritinu Nature, um fyrstu uppgötvanir Parkers.

„Bara í þessum fyrstu ferðum á braut um sólu höfum við orðið bergnumdir af undrun á því hversu ólík kórónan er í návígi,“ segir Justin Kasper, prófessor í loftslags- og geimvísindum og verkfræði við Michigan-háskóla. Í samantekt frá skólanum segir að haldið hefur verið að óstöðugleiki í segulsviði sólarinnar kunni að hafa verið valdur að hitun kórónunnar.

Væntu þeir þess að mæligögn Parkers myndu staðfesta þá tilgátu. Svo fór ekki og í staðinn segja þeir að miklu kraftmeiri „flökkubylgjur“ kunni að vera orkuspretta kórónunnar; bylgjur sem eru það orkumiklar að þær geti algjörlega umpólað stefnum segulsviðsins.

Grundvallaratriði vantar

Vísindamennirnir urðu einnig undrandi á því hvað þeir hafa uppgötvað um hröðun sólvinda: straum orkuríkra rafhlaðinna róteinda, rafeinda og annarra örefna, frá kórónu sólar og út í geiminn, m.a. til jarðarinnar. Vitað var að innar í hjúpnum og nær yfirborðinu togaði segulsviðið sólvindinn í sömu átt og möndulsnúningur sólarinnar stefndi. Bjuggust vísindamennirnir við því að úr þeim áhrifum drægi utar í lofthjúp sólarinnar.

„Okkur til mikillar undrunar höfum við á nálgun farsins að sólu greint umfangsmikla hverfistrauma, jafnvel 10 til 20 sinnum stærri en stöðluð reiknilíkön fyrir sólina gera ráð fyrir,“ bætir Kasper við.

„Inn í dæmið vantar því eitthvert grundvallaratriði um sólina og hvernig sólvindurinn sleppur út. Þetta hefur gríðarlegar skírskotanir. Við geimveðurspár verður að taka tillit til þessara strauma ef við ætlum okkur að geta sagt um hvort massastreymi frá kórónunni geti teygt sig alla leið til jarðarinnar eða lamið á geimförum á leið til tunglsins eða Mars,“ sagði hann ennfremur.

Stuart Bale, eðlisfræðiprófessor við Kaliforníuháskóla í Berkeley, rifjar upp í þessu sambandi að „meiriháttar fyrirbæri í geimnum“ hefði árið 1859 splundrað símalínum á jörðinni. Annað slíkt fyrirbæri hafi gangsett sprengidufl bandarískra herskipa í N-Víetnam 1972.

Samfélög nútímans eru háðari flókinni og margbrotinni tækni en áður og því segir Bale, að „umfangsmikið ónæði“ frá sólu gæti mögulega verið gríðarlega alvarlegt. „Væri okkur unnt að spá fyrir um geimveðurfar gætum við slökkt á eða einangrað hluta rafdreifikerfisins til að hlífa því við tjóni. Sömuleiðis mætti slökkva á gervihnattakerfum sem gætu verið í hættu stödd.“

Töfrandi afrek

Nicky Fox, einn af vísindamönnum NASA sem vinnur við Parker-verkefnið, sagði blaðamönnum að sú staðreynd að mannkynið hafi sent geimfar inn í lofthjúp stjörnu væri eitt og sér „töfrandi“ afrek.

„Sú staðreynd að þar sé um að ræða þá stjörnu sem er næst okkur gerir gott enn betra. Við höfum beðið í áratugi eftir því að öðlast skilning á leyndardómum,“ sagði hann.

Sólfarið er nefnt eftir bandaríska stjarneðlisfræðingnum Eugene Parker sem fyrstur manna kom fram með kenningu um sólvindinn. Lýsti hann fyrirbærinu sem samverkandi kerfi segulsviða, orkueinda og rafgass.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert