Mengun í Kína minnkar verulega

Samanburður á meðaltalsmengun í Kína í janúar og febrúar á …
Samanburður á meðaltalsmengun í Kína í janúar og febrúar á þessu ári. Skýringarmynd/NASA

Gervihnattamyndir bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA sýna að mengun hefur minnkað gríðarlega í Kína frá því kórónuveirunnar varð vart. Sá mikli samdráttur í atvinnustarfsemi sem orðið hefur vegna faraldursins í Kína skýrir þetta að minnsta kosti að hluta, segja sérfræðingar NASA.

Fjallað er um þetta á vef BBC, en kort NASA hér að ofan sýnir hvernig styrkur köfnunarefnistvíoxíðs í andrúmsloftinu hefur hríðfallið á þéttbýlustu svæðum landsins, þar sem þungamiðju kínversks iðnaðar er að finna. Meðalmengunin var mun minni í febrúar en hún var í janúar. Fjölmargar verksmiðjur hafa lokað tímabundið frá því veiran hóf að breiðast út í Kína og umferð á götum úti sömuleiðis minnkað.

Hér að neðan má svo sjá hvernig mengunin hefur verið í borginni Wuhan í Hubei-héraði, þar sem fyrstu smit veirunnar greindust, miðað við árið 2019. Gildi köfnunarefnistvíoxíðs eru mun lægri nú en í fyrra, en afar strangar ferðatakmarkanir hafa verið í gildi í héraðinu öllu frá því fljótlega eftir að veirunnar varð vart og íbúar þar hvattir til að halda sig heima.

NASA segir að venjulega réni mengun í Kína yfir kínverska nýárið, sem er í lok janúar og fram í febrúar, en aukist svo á ný þegar frídögunum lýkur. Fei Liu, sérfræðingur hjá geimferðamiðstöð NASA, segir að hún hafi aldrei séð mengun minnka svona mikið í tengslum við einn viðburð.

Mengun í Wuhan og nágrenni er sáralítil í ár miðað …
Mengun í Wuhan og nágrenni er sáralítil í ár miðað við í fyrra. Skýringarmynd/NASA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert