Hjarðónæmi náðist á meðal borgarbúa 1918

Fullveldi Íslands fagnað 1. desember 1918, í skugga spænsku veikinnar …
Fullveldi Íslands fagnað 1. desember 1918, í skugga spænsku veikinnar sem gert hafði mikinn usla vikurnar á undan.

Telja má fullvíst að hjarðónæmi hafi verið komið gegn spænsku veikinni meðal borgarbúa strax í nóvemberlok eða desemberbyrjun 1918. Aftur á móti má gera ráð fyrir að ónæmi hafi ekki verið til staðar meðal íbúa á sumum stöðum innanlands sem sluppu við aðra bylgjuna árið 1918.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í svari Magnúsar Gottfreðssonar, prófessors í læknisfræði við Háskóla Íslands og sérfræðings í smitsjúkdómum, á Vísindavefnum.

Sögulegar heimildir greina frá því að í fyrstu bylgju spænsku veikinnar sem kom til Reykjavíkur í júlí 1918 og stóð yfir fram í september, hafi þeir sem þá veiktust verið varðir í annarri bylgju sem barst hingað í október sama ár,“ segir í svari Magnúsar.

Þegar önnur bylgja spænsku veikinnar reið yfir hafði veikin breyst úr hefðbundinni flensu í drepsótt, þá sem við tengjum alla jafna við hina eiginlegu spænsku veiki. 

Telja má nokkuð víst að þeir sem lifðu þá veiki af voru varðir fyrir veikindum af völdum sömu veiru, líkt og þeir sem veiktust í fyrstu bylgjunni. Eins og kunnugt er tókst að stöðva útbreiðslu annarrar bylgju veikinnar til Norður- og Austurlands og voru því líklega allmargir íbúar þessara svæða enn óvarðir er hún var um garð gengin á Suður- og Vesturlandi. Hvað sem þessu líður er ljóst að þriðja bylgja veikinnar vorið 1919 var ekki slæm hér á landi. Raunar hefur ekki verið sýnt fram á neina aukningu í dauðsföllum vegna inflúensu á Íslandi árin 1919-1920, ólíkt því sem ef til vill hefði mátt vænta. Hins vegar eru til lýsingar frá stöðum sem sluppu við veikina 1918 á afar alvarlegri inflúensu sem geisaði sumarið 1921.“

Magnús Gottfreðsson sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við …
Magnús Gottfreðsson sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Lækkun dánartíðni skýrist af útbreiddu ónæmi

Það sumar lagðist sóttin þungt á ungt fólk og barnshafandi konur en hvort tveggja var einkennandi fyrir spænsku veikina. 

Árið 1921 var dánartíðni vegna inflúensu á Íslandi einnig óvenjuhá, 79 dauðsföll, sem bendir til að inflúensuveiran sem olli spænsku veikinni hafi haldið sýkingarmætti sínum næstu ár á eftir. Sú lækkun á dánartíðni vegna inflúensu sem sást víðast hvar á landinu árin eftir 1918 skýrist vafalítið af útbreiddu ónæmi gegn veirunni, frekar en að hún hafi misst sýkingarmátt sinn,“ segir í svari Magnúsar. 

Síðari tíma rannsóknir á annarri bylgju spænsku veikinnar hérlendis benda til þess að smitstuðull veirunnar í Reykjavík hafi verið nálægt 2,2. Sé það rétt má reikna út að nálægt 55% borgarbúa/þjóðarinnar hefðu þurft að mynda virkt ónæmissvar gegn veirunni til að koma í veg fyrir áframhaldandi útbreiðslu hennar innan borgarinnar/landsins í heild og ná þannig svokölluðu hjarðónæmi.

Taldi að 10.000 af 15.079 hefðu smitast

Heilbrigðisskýrslur frá árinu 1918 tiltaka 7.119 tilfelli spænsku veirunnar hérlendis en Magnús segir ljóst að það sé mjög vantalið. Héraðslæknirinn í Reykjavík taldi til að mynda að ekki færri en 10.000 manns hefðu veikst af spænsku veikinni en 15.079 manns bjuggu í Reykjavík á þeim tíma.

„Af samtímaheimildum er því ljóst að hærra hlutfall borgarbúa en 55% sýktist samanlagt í fyrstu og annarri bylgju veikinnar. Má telja fullvíst að hjarðónæmi hafi verið komið gegn spænsku veikinni meðal borgarbúa strax í nóvemberlok eða desemberbyrjun 1918. Hins vegar má gera ráð fyrir að ónæmi hafi ekki verið til staðar meðal íbúa á sumum stöðum innanlands sem sluppu við aðra bylgjuna árið 1918,“ segir í svari Magnúsar og jafnframt:

„Af ofangreindu má því álykta að víðtækt ónæmi - eða hjarðónæmi - gegn þeim stofni inflúensu sem olli spænsku veikinni hafi verið komið á nánast landinu öllu seinni hluta ársins 1921.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert