Íshella Grænlands hefur áður bráðnað algjörlega

„Niðurstöður okkar segja okkur að íshellan er viðkvæm,“ sagði Paul …
„Niðurstöður okkar segja okkur að íshellan er viðkvæm,“ sagði Paul Bierman, jarðfræðingur við háskólann í Vermont og aðalhöfundur rannsóknarinnar. AFP

Íshellan sem þekur hluta Grænlands hefur bráðnað algjörlega að minnsta kosti einu sinni á síðustu milljón árum þrátt fyrir að magn koltvísýrings í andrúmslofti hafi þá verið mun lægri en í dag, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Hún bendir til þess að enn minna þurfi til þess að ýta óafturkræfri bráðnun íshellunnar fram af brúninni en áður var talið. 

Óvænt uppgötvun steingervinga úr jarðvegi í jarðvegssýnum sem voru tekin á sjöunda áratugnum af verkfræðingum bandaríska hersins, tveimur kílómetrum undir ísnum, er ótvíræð sönnun um að Grænland var þakið fléttum, mosa og ef til vill trjám hér áður fyrr. 

„Niðurstöður okkar segja okkur að íshellan er viðkvæm,“ sagði Paul Bierman, jarðfræðingur við háskólann í Vermont og aðalhöfundur rannsóknarinnar sem var birt í tímaritinu Proceedings of the National Academy, í samtali við fréttastofu AFP.

Ef íshellan hverfur algjörlega mun hún lyfta heimshöfunum um næstum …
Ef íshellan hverfur algjörlega mun hún lyfta heimshöfunum um næstum sjö metra. AFP

Mun lyfta heimshöfunum um sjö metra

Þar til seint á tíunda áratug síðustu aldar var íshellan á Grænlandi nokkurn veginn í jafnvægi og náði jafnmiklum massa í gegnum snjókomu að vetri og hún tapaði við hærra hitastig á sumrin.

Á síðustu tveimur áratugum hefur hlýnun jarðar aukist og þetta jafnvægi farið úr skorðum. Árið 2019 bráðnuðu meira en 500 milljarðar tonna af ís og vatni af Grænlandi. Um 40% af heildarhækkunar sjávarborðs það árið má rekja til þessarar bráðnunar. 

Ef íshellan hverfur algjörlega mun hún lyfta heimshöfunum um næstum sjö metra. Jafnvel tveggja metra hækkun sjávarborðs myndi breyta strandlengjum heimsins verulega og gera búsvæði hundruð milljóna manna óbyggileg. 

Jarðvegssýnin enduðu í frysti í Danmörku. Þar uppgötvuðuð vísindamenn þau …
Jarðvegssýnin enduðu í frysti í Danmörku. Þar uppgötvuðuð vísindamenn þau árið 2017. AFP

Vandamál næstu 50 ára

„Þetta er ekki 20 kynslóða vandamál,“ sagði Bierman. „Þetta er vandamál næstu 50 ára.“

Sönnunargögnin sem um ræðir væru ekki til nema vegna áætlunar í Kalda stríðinu sem miðaði að því að fela hundrað kjarnorkuflaugar undir ísfjalli um 120 kílómetrum inn af norðvesturströnd Grænlands. 

Við smíði rannsóknarstöðvarinnar Camp Century, sem kynnt var fyrir heiminum sem rannsóknarmiðstöð, boruðu vísindamenn bandarískra stjórnvalda niður í 1,4 kílómetra ískjarna. Við enda kjarnans var eitthvað um frosna mold sem vísindamennirnir tóku sýni úr.

Jarðvegssýnin enduðu í frysti í Danmörku. Þar uppgötvuðuð vísindamenn þau árið 2017. Sýnin voru svo send til Háskólans í Vermont. 

AFP

Ástæður bráðnunarinnar mögulega óhugnanlegastar

Bierman segir að það hafi komið honum mjög á óvart að sjá hvað sýnin innihéldu. Í einu þeirra var trékvistur, og segir Bierman að það sé magnað að trékvistur hafi fundist undir 1,5 kílómetra af ís. 

Sýnin voru skoðuð af fjórum teymum vísindamanna í Bandaríkjunum og Evrópu. Þau voru dagsett með því að mæla breytileika í frumeiningum og geislavirkni. 

Niðurstöðurnar benda til þess að íshellan hafi horfið fyrir um einni milljón ára og mjög mögulega aftur um 600.000 árum síðar. 

Það sem er kannski óhugnanlegast við niðurstöður vísindamannanna eru ástæður þess að ísbreiðan bráðnaði. 

Helsti drifkraftur hlýnunar jarðar í dag er uppsöfnun koltvísýrings í andrúmsloftinu en hún hefur aukist frá því um miðja 19. öld úr um 285 hlutum á milljón í um 415 hluti á milljón í dag. 

Lengi hefur því verið haldið fram að enn meiri koltvísýring þurfi til þess að ýta óafturkræfri bráðnun ísbreiðunnar fram af brúninni. Nýju niðurstöðurnar benda til annars enda var mun minni koltvísýringur í andrúmsloftinu þegar ísbreiðan bráðnaði síðast en nú er. 

Ráðgjafarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur spáð því að hækkun sjávarborðs muni hækka um tæpan metra fyrir lok aldarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert