Boða aukna framleiðslugetu á bóluefnum

Búast má við að framleiðslugeta á bóluefnum í Evrópu aukist á næstunni og afhending verði í kjölfarið hraðari. 

Á vef Lyfjastofnunar Evrópu segir að tilteknar aðgerðir og ákvarðanir stuðli að aukinni framleiðslugetu og hraðari afhendingu bólefna. Þetta á við um öll þrjú bóluefnin sem hafin er notkun á hérlendis að því er fram kemur á vef Lyfjastofnunar.

Nýr framleiðslustaður hefur verið samþykktur fyrir bóluefni AstraZeneca í Leiden í Hollandi. Þar verður virka efni bóluefnisins framleitt.

Nýr framleiðslustaður hefur verið samþykktur fyrir bóluefni BioNTech/Pfizer í Marburg í Þýskalandi. Þar verður bæði virka efni bóluefnisins framleitt, sem og fullbúið bóluefni. Jafnframt hafa ný geymsluskilyrði verið samþykkt sem gera flutning bóluefnisins og dreifingu auðveldari.

Nýr framleiðslustaður hefur verið samþykktur fyrir bóluefni Moderna í Visp í Sviss. Þar verður bæði virka efni bóluefnisins framleitt sem og fullbúið bóluefni. Jafnframt hafa breytingar á framleiðsluferli verið samþykktar sem munu stuðla að aukinni framleiðslugetu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert