Telur ekki mikið gagn að tveggja metra reglunni

Ljósmynd/Aðsend

Tæpur vísindalegur grundvöllur er fyrir tveggja metra nálægðartakmörkunum innandyra, samkvæmt nýrri rannsókn frá MIT-tækniháskólanum í Boston í Bandaríkjunum. Fjarlægð milli einstaklinga er ekki lykilbreyta heldur vegi aðrir þættir eins og loftræsting þyngra í að útskýra smit sem berast með andrúmsloftinu en stjórnvöld víða um heim hafi ekki reiknað með þeim þáttum þegar sóttvarnir eru skipulagðar.     

Martin Bazant, prófessor í efnaverkfræði við MIT-tækniháskólann og annar af höfundum rannsóknarinnar, telur að ekki sé mikið gagn að tveggja metra nálægðartakmörkunum á milli einstaklinga í lokuðu rými. Bandaríska fréttastofan CNBC hefur eftir Bazant að í rýmum með mjög blönduðu andrúmslofti veiti 20 metra nálægðartakmörkun mönnum jafn mikla vernd og tveir metrar.

Erlendum heilbrigðisstofnunum eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur samkvæmt Bazant yfirsést það tímaskeið sem einhver er innandyra með smitbera. Lítil og illa loftræst rými þar sem einstaklingar eru nálægt hver öðrum, eins og t.d. á elliheimilum, geta því orðið að skæðum gróðrastíum fyrir smit ef ekki er gripið til aðgerða.

Bazant telur að ekki hafi þurft að loka þeim vinnustöðum sem eru nægilega stórir og vel loftræstir til þess að koma í veg fyrir loftsmit. Nefnir hann m.a. að sumar háskólastofur uppfylli þessi skilyrði. Það væri hægt að hafa þá vinnustaði opna, jafnvel án sérstakra fjöldatakmarkana. Niðurstöður rannsóknarinnar eiga þó einungis við loftsmit. Tveggja metra nálægðartakmarkanir draga úr fjölda smita sem berast í gegnum snertingu eða dropasmit.          

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert