Starfshópur kannar möguleika vindorkuvera á hafi

Kannaðir eru möguleikar að því að reisa vindorkuver út á …
Kannaðir eru möguleikar að því að reisa vindorkuver út á hafi. Ljósmynd/Aðsend

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að skipa starfshóp sem mun kanna möguleikann á nýtingu vinds með vindorkuverum á hafi í lögsögu Íslands. Þetta staðfestir Steinar Ingi Kolbeins, aðstoðarmaður ráðherra, í samtali við mbl.is.

Er þetta gert í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem er tekið fram að marka skuli stefnu um vindorkuver á hafi. Áður en að stefnumótin getur hafist þarf að liggja fyrir heildrænt yfirlit yfir möguleika til framleiðslu raforku frá vindorkuverum.

Mun samantekt starfshópsins vera nýtt til að undirbúa stefnumörkun stjórnvalda um nýtingu vinds á hafi sem er liður í gerð uppfærðrar orkuskiptaáætlunar. „Skoða þarf vandlega hvort og þá hvernig vindorka á hafi verði liður í þeirri orkuskiptaáætlun sem sett verður fram á næstu misserum,“ segir Steinar.

Aðilar verða tilnefndir í starfshópinn af ÍSOR, Orkustofnun, Veðurstofunni og Náttúrufræðistofnun. Formaður verður skipaður án tilnefningar. Starfshópurinn mun leita upplýsinga hjá framangreindum stofnunum auk Hafrannsóknarstofnun, Samorku og Landsvirkjun ásamt upplýsingum erlendis frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert