Umboðsmenn já- og nei-fylkinga

Landskjörstjórn skipaði í dag tólf lögmenn til að vera umboðsmenn já- og nei-fylkinganna við þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin sem fyrirhugað er að halda um helgina. Hending ræður því fyrir hvora fylkingu viðkomandi er.

Við alþingiskosningar tilnefna stjórnmálaflokkarnir umboðsmenn hjá öllum yfirkjörstjórnum. Hlutverk þeirra er ekki hvað síst að fylgjast með úrskurði um gildi vafaatkvæða og skjóta slíkum ágreiningi til landskjörstjórnar.

Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki beinna hagsmuna að gæta nú og ákvað landskjörstjórn að leita til lögmanna til að taka þetta hlutverk að sér. Ásmundur Helgason, ritari landskjörstjórnar, segir að sú stétt manna sé vön því að gæta hagsmuna skjólstæðinga án þess að þurfa endilega að samsama sig sjónarmiðum þeirra.

Í Norðvesturkjördæmi er Pétur Kristinsson umboðsmaður fyrir já og Tryggvi Bjarnason fyrir nei.

Í Norðausturkjördæmi er Ingvar Þóroddsson fyrir nei og Arnbjörg Sigurðardóttir fyrir já.

Í Suðurkjördæmi gætir Andrés Valdimarsson hagsmuna já en Sigurður Jónsson sér um nei.

Í Reykjavíkurkjördæmi norður er Hulda Rós Rúriksdóttir fyrir nei og Valborg Þ. Snævarr fyrir já.

Í Reykjavíkurkjördæmi suður er Inga Björg Hjaltadóttir umboðsmaður fyrir já en Arnar Þór Stefánsson fyrir nei.

Í Suðvesturkjördæmi, Kraganum svonefnda, er Jóna Björk Helgadóttir fyrir nei og Eva Margrét Ævarsdóttir fyrir já.

mbl.is

Bloggað um fréttina