Mikill áhugi erlendra fjölmiðla á þjóðaratkvæðagreiðslunni

Fulltrúar InDefence á Bessastöðum með undirskriftalista þar sem farið var …
Fulltrúar InDefence á Bessastöðum með undirskriftalista þar sem farið var fram á að forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar. mbl.is/Ómar

Forsvarsmenn samtakanna InDefence segja, að erlendir fjölmiðlar hafi sýnt þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin á laugardag mikinn áhuga og margir hafi boðað komu sína hingað til lands um helgina.

Ólafur Elíasson, einn forvígismanna samtakanna, segir að fulltrúar þeirra hafi sennilega farið í um 200 viðtöl við erlenda fjölmiðla á undanförnum vikum og skýrt út afstöðu sína til Icesave-laganna og þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Segir Ólafur, að InDefence-menn ætli sér að sinna erlendum fjölmiðlamönnum fram að helginni og á laugardagskvöld verða samtökin með sérstaka móttöku fyrir erlenda fjölmiðla.

„Við höfum haft nokkrar áhyggjur af því, að þessi gluggi, sem við höfum á laugardaginn inn í fjölmiðla í útlöndum nýtist ekki sem skyldi. Því miður hefur það ekki verið gert hingað til. Daginn sem forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum voru meðlimir InDefence á kafi upp fyrir haus við að útskýra málið fyrir erlendum fjölmiðlum á sama tíma og stjórnvöld sátu á fundi og skrifuðu yfirlýsingu um það, að nú færi allt á verri veg á Íslandi. Vonandi hafa þau þó nú lært af reynslunni," sagði Ólafur.

Hann sagði að í samtölum við fjölmiðlamennina hafi InDefence lagt áherslu á, að Íslendingar séu ekki að hlaupa undan lögbundnum skuldbindingum sínum heldur sé um að ræða kröfur Breta og Hollendinga, sem þeir byggi á sinni lagatúlkun á Evrópureglum, sem þeir séu þó ekki sjálfir tilbúnir til að fara með fyrir dómstóla.

Ennfremur hafi InDefence-menn bent á, að eignir þrotabús Landsbankans séu metnar á 6,7 milljarða evra en innistæðutryggingarábyrgðirnar séu 3,9 milljarðar evra. Ástæðan fyrir því, að eignir duga ekki fyrir innistæðutryggingunum séu þær, að Bretar og Hollendingar geri kröfur kröfu um helming eignanna til að mæta þeirra kostnaði við að bæta sínum innistæðueigendum langt umfram skyldu og senda síðan íslenskum skattgreiðendum reikninginn.

„Við bendum einnig á notkun hryðjuverkalaga gegn íslenskri þjóð og afskipti Breta og Hollendinga af efnahagsaðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þrátt fyrir þetta höfum við í öllum okkar viðtölum lagt gríðarlega áherslu á að Íslendingar vilji leysa þetta Icesave-mál með sanngjörnum hætti og séu á engan hátt að hlaupa undan einhverjum lagalegum skuldbindingum. Kjarni málsins hlýtur þó að vera sá að gengið sé frá málinu með þeim hætti, að eigur Landsbankans séu fyrst og fremst notaðar til að greiða skaðann," sagði Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina