Segir ekki langt í land í Icesave-deilu

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ernir

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Rás 2 í dag að ekki væri langt í land með að niðurstaða fáist í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Hins vegar séu allar líkur á að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-lögin verði á laugardag eftir tvo daga.

Steingrímur sagði, að viðræður í Lundúnum í gær hefðu gengið hægar og það hafi gerst minna en  vonir stóðu til. Þar hefðu hins vegar verið ræddar tillögur, sem vissulega hefðu þokað málinu áleiðis og bilið milli manna í sambandi við kostnað við Icesave-lán hefði minnkað en ekki nóg að mati Íslendinga.

Hann sagði að menn hefðu haldið áfram að skoða málið í gærkvöldi og verði væntanlega aftur í sambandi við viðsemjendur með morgninum.

Steingrímur sagði, að hann hefði sagt það strax í byrjun janúar, að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-lögin fari fram nema eitthvað stórt og efnislegt hefði breytt stöðunni. „Það hefur ekki gerst enn því miður," sagði Steingrímur. „Hitt er annað mál, að við höfum verið í viðræðum um að gera nýjan samning og orðið heilmikið ágengt í þeim efnum. Það er ekkert mjög langt í land með að það náist niðurstaða  sem er umtalsvert hagstæðari fyrir Ísland. Auðvitað væri æskilegar að festa það niður, hafa það í hendi,  þá vissu menn hvar þeir stæðu en vonin um það eða tilvist þessara viðræðna og það sem þar glittir í setur þessa kosningu í sérstakt samhengi."

mbl.is