Ekki hægt annað en segja nei

Guðbjartur Hannesson ræðir við erlenda blaðamenn í gær.
Guðbjartur Hannesson ræðir við erlenda blaðamenn í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar Alþingis, sagði við erlenda blaðamenn í gær, að ekki væri hægt annað en segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun í ljósi þess að Íslendingar hafi fengið betra tilboð frá Bretum og Hollendingum en Icesave-lögin fela í sér.

 „Í þessari atkvæðagreiðslu er ekki annað hægt en að segja nei. Því það er mögulegt að ná betri samningi," hefur norski fréttavefurinn ABC Nyheter eftir Guðbjarti. Þegar ABC spurði Guðbjart hvernig hann myndi greiða atkvæði svaraði hann: „Ef það er eitthvað betra í boði en það sem Alþingi samþykkti í desember þá er aðeins um eitt að ræða: Að segja nei. Það er hlutverk okkar," hefur vefurinn eftir honum.

AFP fréttastofan hefur eftir Guðbjarti, að Íslendingar verði að vona, að það sem rætt hafi verið um í Lundúnum að undanförnu verði ekki dregið til baka.

Bloomberg fréttastofan hefur eftir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að atkvæðagreiðslan á morgun verði marklaus og henni þyki það sorglegt.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði einnig við Bloomberg, að atkvæðagreiðslan hafi aðeins táknræna merkingu. „Og það er ekki einu sinni ljóst hver sú merking er. Ef það gengur eftir, sem allt bendir til, að loögunum verður hafnað, þurfum við samt sem áður að leysa þetta mál."

 Við AFP fréttastofuna sagði Gylfi, að frekari tafir á málum  Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gæti leitt til allt að 5% efnahagssamdráttar á Íslandi á þessu ári í stað 2-3% sem spár hafa gert ráð fyrir. 

„Það er hætta á því, að kostnaðurinn við tafir á samkomulaginu kunni að verða meiri en kostnaðurinn vegja Icesave-málsins sjálfs," sagði hann. 

Frétt ABC Nyheter 

Frétt Bloomberg

mbl.is