Tilbúnir til frekari viðræðna

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins, að hann hefði nú undir kvöld fengið svör við bréfi sem hann sendi starfsbræðrum sínum í Bretlandi og Hollandi í gær. Segist ráðherrarnir vera reiðubúnir til frekari viðræðna um Icesave-málið eftir helgina.

Í viðtali við Helga Seljan sagðist Steingrímur hafa sent starfsbræðrum sínum tölvupóst í gær þar sem hann lagði til að hlé yrði gert á viðræðunum yfir helgina og þær síðan teknar upp að nýju eftir helgi og þeir hafi fallist á það. 

Steingrímur sagðist einnig treysta því, að Bretar og Hollendingar hlaupi ekki frá því tilboði, sem þeir hefðu þegar lagt fram og væri talsvert hagstæðara varðandi greiðslukjör en Icesave-lögin gerðu ráð fyrir. Hann sagðist ekki vera viss um að það styrki stöðu Íslands ef Icesave-lögin verða felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun en hann vonaði að atkvæðagreiðslan truflaði sem minnst samningaviðræðurnar um Icesave-málið.

Þá viðurkenndi Steingrímur aðspurður, að það hefði veikt ríkisstjórnina, að hafa ekki tekist að ljúka Icesave-málinu fyrir löngu svo og stjórnvöld væru ekki komin lengra á veg með endurreisn atvinnulífsins en raun bæri vitni.

Steingrímur sagði, að tafirnar á að leysa Icesave-málið væru búnar að kosta Íslendinga óheyrilegar fjárhæðir. „Það er algerlega borðleggjandi að þetta er búið að tefja fyrir okkur og hindra efnahagslega endurreisn og það er okkur dýrt. Áframhaldandi töf á því verður ennþá dýrari og við megum enn síður við að þetta tefjist mikið úr þessu." 

Samninganefndin hefur unnið gott starf

Steingrímur sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag: Hvernig haldið þið að það gangi að semja ef menn í samningaliðinu vilja ekki semja? Þegar Steingrímur var spurður um þessi orð í Kastljósinu sagðist hann sérstaklega vilja taka fram að hann hefði ekki verið að tala um íslensku samninganefndina, sem rætt hefur við Breta og Holllendinga síðustu vikur.

„Samninganefndin vann mjög vel sem ein heild undir traustri forustu Lee Buchheits, og það gildir ekki síst um   fulltrúa sem stjórnarandstaðan valdi sérstaklega inn," sagði Steingrímur. Hann sagði hins vegar að sér hefði brugðið í vikunni þegar fulltrúar stjórnarandstöðunnar, þar á meðal Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefðu allt í einu farið að tala um það að kalla ætti samninganefndina heim frá London. „þegar ég hélt að við værum öll sammála um að veita nefndinni umboð til að reyna að ná niðurstöðu. Og ég fór að velta fyrir mér hvort eitthvað væri að bila bakstuðningurinn við samninganefndina," sagði Steingrímur.

Hann sagðist einnig hafa verið að vísa til þeirrar breiðu umræðu, sem sé í þjóðfélaginu. Meðal annars héldu málsmetandi menn því fram, að Ísland eigi enga ábyrgð að bera í málinu og ekki borga eina einustu krónu.

mbl.is