Stund samstöðunnar runnin upp

Erlendir blaðamenn og félagar í InDefence hlustuðu á fyrstu tölur …
Erlendir blaðamenn og félagar í InDefence hlustuðu á fyrstu tölur á heimili Magnúsar Árna Skúlasonar í kvöld. mbl.is/Kristinn

„Það ríkir mikil ánægja í okkar röðum með þessa samstöðu þjóðarinnar og við í InDefence erum hrærð yfir þeim stuðningi, sem barátta okkar hefur fengið. Nú er stund samstöðunnar runnin upp," sagði Ólafur Elíasson, einn af forsvarsmönnum samtakanna InDefence.

Samtökin söfnuðu á sjötta tug þúsunda undirskrifta undir áskorun til forseta Íslands um að synja Icesave-lögunum staðfestingar og varð Ólafur Ragnar Grímsson við þeirri áskorun í byrjun janúar. Nú hafa lögin verið felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ólafur sagði að InDefence-menn væru mjög ánægðir með niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar en þar hefði þjóðin sagt með skýrum hætti, að hún gengi ekki að hverju sem er.

Ólafur sagði, að InDefence hefði að undanförnu lagt sig fram við að upplýsa erlenda blaðamenn um Icesave-málið, eðli þess og stöðu og komið sjónarmiðum Íslendinga á framfæri. „Mér finnst að okkar sjónarmið hafi notið mikils skilnings og samúðar," sagði Ólafur.

Hópur erlendra blaðamanna var á heimili Magnúsar Árna Skúlasonar, eins forsvarsmanna samtakanna, í kvöld þegar fyrstu tölur úr atkvæðagreiðslunni voru birtar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina