Nei sögðu 93,2%

Kosningar í Ráðhúsi Reykjavíkur
Kosningar í Ráðhúsi Reykjavíkur Kristinn Ingvarsson

Lokatölur úr þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin hafa skilað sér úr öllum kjördæmum nema Norðausturkjördæmi, en talning þar frestaðist þar sem ekki væri hægt að flytja atkvæði úr Grímsey. Samkvæmt nýjustu tölum sögðu 93,2% en 1,8% já.

Í Reykjavíkurkjördæmunum báðum sögðu 91,7% nei en 2,2% já. Í Suðvesturkjördæmi greiddu 94,6% atkvæði gegn lögunum og Suðurkjördæmi 95,2%.

Lokatölur hafa nú borist úr Norðvesturkjördæmi. Þar greiddu 13.561 atkvæði sem er 63,6% kjörsókn. Já sögðu 295 eða 2,18%, nei sögðu 12.573 eða 92,71%. Auðir atkvæðaseðlar voru 660 eða 4,87% og ógildir 33 eða 0,24%.

Gert er ráð fyrir að heildarkjörsókn hafi verið í kringum 62% en landskjörstjórn mun senda staðfestar niðurstöður um það þegar úrslit liggja fyrir í öllum kjördæmum.

mbl.is

Bloggað um fréttina