Ríkisstjórnin þarf að þétta raðirnar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kýs í atkvæðagreiðslunni í gær.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kýs í atkvæðagreiðslunni í gær. mbl.is/Kristinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist í Silfri Egils í dag telja að ríkisstjórnin verði að fara frá og að allir flokkar eigi að vinna saman að afmörkuðum verkefnum við uppbyggingu efnahagslífsins þar til kosið verður til þings, hugsanlega samhliða sveitarstjórnarkosningunum.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist viðurkenna að ríkisstjórnin þurfi að þétta raðirnar til að tryggja að hún komi sínum málum áfram. En Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði hins vegar að núverandi ríkisstjórn væri sú sterkasta sem völ væri á um þessar mundir.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að hann treysti ekki ríkisstjórninni til að ljúka þeim mikilvægu verkefnum, sem væru á borðinu. Hún hefði sjálf kosið, að setja á dagskrá ýmis mál, sem hefðu klofið þjóðina og engin sátt væri um í þinginu en málin, þar sem stjórnin hefði lagt mest í sölurnar, hefðu verið rekin aftur ofan í hana, eins og Icesave-málið nú.

Bjarni sagði að sér hugnaðist ekki illa hugmynd um kosningar og ljóst sé, að ekki væri hægt að halda áfram á sömu braut. Takast yrði starfsfriður á Alþingi um mikilvægustu málin og leiðin til að gera það væri að þvælast ekki þar með mál, sem ýfðu upp illindi og settu allt í uppnám, svo sem áform um fyrningarleið í sjávarútvegi.

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, sagði að þjóðin væri orðin þreytt á endalausu rifrildi milli hægri og vinstri í stjórnmálum. „Við verðum að fara að vinna saman og það er ekki hægt í þessu leikhúsi sem við erum núna," sagði hún.

Er eitthvað skrítið að það hrikti í?

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að láta yrði á það reyna að ríkisstjórnin hefði styrk til að koma fram málum en það hefði henni ekki alltaf tekist. „Það er nauðsynlegt að þessi ríkisstjórn þétti raðir sínar til að ná fram sínum málum, ég viðurkenni að hún þarf að gera það," sagði Jóhanna.

Steingrímur sagðist telja að þessi ríkisstjórn væri sú sterkasta og samstæðasta sem völ væri á nú. Hún hefði verk að vinna og legið hafi fyrir að það yrði ekki auðvelt. „Er eitthvað skrítið þótt hrikti í þegar við erum að fara með samfélagið gegnum þessa erfiðleika? Það er enginn bilbugur á mér gagnvart því, að þessi ríkisstjórn er sú málefnalega samstæðasta sem landið á völ á með traust umboð frá þjóðinni og hreinan meirihluta. En ég mun ekki sitja degi lengur í henni en á meðan ég hef fulla trú á verkefninu," sagði Steingrímur

Verkefnið að leysa Icesave-málið

Steingrímur sagði, að Icesave-málinu hefði ekki lokið með kosningunni í gær og verkefnið framundan væri að leysa það. Þá þyrfti að sinna ótal öðrum verkefnum á næstu vikum og mánuðum. „Staða Íslands er vandasöm og viðkvæm á ýmsa lund og við þurfum að komast hér áfram með okkar endurreisn. Það er afar brýnt og má ekki tefjast lengur," sagði Steingrímur.  

Jóhanna sagði nauðsynlegt að það náist sátt milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í Icesave-málinu og ljúka því.

mbl.is