Brown vísar á Darling

Gordon Brown og Alistair Darling
Gordon Brown og Alistair Darling Reuters

Talsmaður Gordons Brown, forsætisráðherra Bretlands, vísaði á bug áskorun forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, um að grípa inn í Icesave-deiluna og leysa deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga. Segir talsmaður Brown að Icesave hafi verið á borði fjármálaráðuneytisins og verði svo áfram. Alistair Darling er fjármálaráðherra Bretlands.

Dow Jones fréttaveitan greinir frá þessu.

Ólafur Ragnar sagði í viðtali við BBC í gær að ef Gordon Brown vildi sýna leiðtogahæfileika í þessu máli með sama hætti og hann gerði alþjóðavettvangi þegar fjármálakreppan skall á fyrir rúmu ári síðan þá ætti hann nú að stíga fram á völlinn og tryggja að sú þróun sem varð í Icesave-samningunum á síðustu vikum leiði til lausnar sem allir geti sætt sig við.

Brown eigi sem forsætisráðherra Breta og sem forystumaður ríkisstjórnarinnar að taka málið í sínar hendur og stuðla að farsælli lausn.

Darling sagði við breska ríkisútvarpið BBC í gær, að Bretar séu reiðubúnir að sýna sveigjanleika til að ná fram lausn í Icesave-málinu. Hann bætti við, að það muni líða mörg ár þar til Bretar fái endurgreitt það fé sem þeir lögðu fram vegna hruns Landsbankans. 

„Grundvallaratriðið í okkar huga er að fá féð til baka en við erum reiðubúnir til að sýna sveigjanleika í samningum um skilyrði og greiðsluskilmála því það þjónar ekki okkar hagsmunum að skáka Íslandi út á hliðarlínuna. Við viljum að Ísland sé hluti af meginstraumnum í Evrópu og þetta er hluti af því ferli," sagði Darling.

mbl.is

Bloggað um fréttina