InDefence krefur stjórnvöld svara

 Samtökin InDefence krefja stjórnvöld svara í spurningalista sem þau hafa sent á stjórnvöld. Minna samtökin á að þegar fyrsti Icesave-samningurinn var kynntur tilkynntu stjórnvöld að kostnaðurinn yrði 170 milljarðar króna auk vaxta. Síðar komust óháðir fræðimenn að því að heildar kostnaðurinn væri í raun um 500 milljarðar króna.

„Fréttir á undanförnum dögum staðfesta að ríkisstjórn Íslands hefur kynnt hagsmunasamtökum atvinnulífsins efni nýs Icesave samkomulags. Efni samkomulagsins hefur hins vegar hvorki verið kynnt þingflokkum á Alþingi né íslenskum skattgreiðendum sem munu þurfa að taka á sig þær byrðar sem samkomulagið fjallar um.

Í gegnum Icesave málið allt hefur ítrekað verið slegið leynd yfir mikilvæg atriði samninganna og stjórnvöld hafa oft veitt villandi upplýsingar. Það er því mjög slæmt að stjórnvöld séu nú byrjuð að kynna völdum aðilum valdar upplýsingar um hugsanlegt samkomulag. Slík vinnubrögð eru óásættanleg.

Miðað við fréttir í fjölmiðlum telja stjórnvöld áætlaðan kostnað við nýjasta Icesave samkomulagið í kringum 60 ma.kr. Hér ber að hafa í huga að við gerð fyrstu Icesave samninganna tilkynntu stjórnvöld að kostnaðurinn yrði 170 ma.kr. auk vaxta. Síðar komust óháðir fræðimenn, s.s. Dr. Jón Daníelsson hjá London School of Economics, að því að heildar kostnaðurinn væri í raun um 500 ma. króna. Það er því eðlilegt að almenningur sé á varðbergi gagnvart opinberum tölum í þessu máli.

InDefence hópurinn skorar á stjórnvöld að læra af fyrri mistökum í þessu máli og kynna þingi og þjóð efnisatriði samkomulagsins strax. Fyrst samningaviðræður er það langt komnar að hægt er að kynna málið fyrir hagsmunasamtökum atvinnulífsins er einnig hægt að kynna það fyrir almenningi.

InDefence hópurinn leggur sérstaka áherslu á að verði gerðir nýjir Icesave samningar er nauðsynlegt að takmarka útistandandi áhættu Íslands. Fyrirvarar Alþingis frá ágúst 2009 takmörkuðu efnahagslega áhættu Íslands og færðu samningana nær Brussel viðmiðunum. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars s.l. var breytingum á fyrirvörum Alþingis svo hafnað með 98,1% atkvæða. Sú höfnun þjóðarinnar snerist ekki aðeins um lægri vaxtaprósentu.

Mikilvægt er að skýrar upplýsingar um ýmsa þætti Icesave málsins liggi fyrir áður en stjórnvöld kjósa að leggja þriðja Icesave samninginn fyrir Alþingi. Í fylgiskjali er að finna 40 spurningar sem varða mikilvæga þætti Icesave málsins og hið nýja samkomulag sem stjórnvöld eru byrjuð að kynna hagsmunaaðilum. InDefence hópurinn óskar eftir svörum stjórnvalda við þessum spurningum," segir í tilkynningu samtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina