Samkomulag að nást um Icesave

Lokafrestur ESA til íslenskra stjórnvalda til þess að bregðast við …
Lokafrestur ESA til íslenskra stjórnvalda til þess að bregðast við áminningarbréfi stofnunarinnar rennur út á þriðjudag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einungis nokkrir dagar eru þar til samningur næst um Icesave reikninga Landsbankans milli Íslands og hollenskra og breskra stjórnvalda. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Hafa erlendir fjölmiðlar tekið fréttina upp en Stöð 2 hefur þetta eftir ónafngreindum heimildum.

Fram kom í Morgunblaðinu þann 16. nóvember að fyrir liggur einskonar rammasamkomulag á milli landanna þriggja, óundirritað, en það mun fela í sér mun hagstæðari kjör fyrir Íslendinga, en hingað til hafa staðið til boða.

Morgunblaðið hefur upplýsingar um að Bretar og Hollendingar og íslenski fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, séu farnir að ókyrrast mjög, þar sem lokafrestur ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, til íslenskra stjórnvalda til þess að bregðast við áminningarbréfi stofnunarinnar, rennur út á þriðjudag, þann 7. desember.

Samkvæmt sömu heimildum Morgunblaðsins frá 16. nóvember vilja Bretar, Hollendingar og íslensk stjórnvöld ekki að áminningarbréfi ESA verði svarað og því stendur vilji til þess að samið verði um Icesave fyrir þann tíma.

mbl.is