Ólöglegt Kannabis skaðar geðið.
Ólöglegt Kannabis skaðar geðið. — Morgunblaðið/Júlíus
UNGLINGAR sem reykja hass reglulega á unglingsaldri eiga frekar á hættu að þróa með sér geðklofa síðar meir en aðrir. Þetta má ráða af stórum rannsóknum frá Svíþjóð, Hollandi og Nýja-Sjálandi. Alls tóku um 150.
UNGLINGAR sem reykja hass reglulega á unglingsaldri eiga frekar á hættu að þróa með sér geðklofa síðar meir en aðrir. Þetta má ráða af stórum rannsóknum frá Svíþjóð, Hollandi og Nýja-Sjálandi.

Alls tóku um 150.000 manns þátt í rannsóknunum fjórum að því er fram kemur á vef Berlingske Tidende. Danski geðlæknirinn Merete Nordentoft hefur skoðað þessar rannsóknir og komist að þeirri niðurstöðu að hættan eykst eftir því sem hassneyslan er meiri. Nýsjálenska rannsóknin leiddi enn fremur í ljós að þeir unglingar sem reyktu hass aðeins einu sinni í viku voru tvöfalt líklegri til að þróa með sér geðveiki og síðar meir geðklofa en aðrir.

Nordentoft greinir frá því að virka efnið THC (tetrahydrocannabinol) hafi aukist verulega í kannabisefnum síðustu áratugi og í dag sé hægt að fá allt frá veiku efni og upp í mjög sterkt. Bæði dregur úr viðbragðshraða og námsgetu í allt að sólarhring eftir að kannabis er neytt.

Nordentoft telur að hægt sé að rekja um 10% geðklofatilfella í Danmörku til hassneyslu.